Gas
Eitt af því sem fylgdi íbúðinni minni hér í Barcelona var bréf frá gasveitunni. Í bréfinu segir að gas eftirlitsmaður hafi komið í heimsókn en komið að tómum kofanum. Í bréfinu er gefið upp símanúmer til þess að semja um heppilegri heimsóknartíma. Mér hefur þetta númer ekki þótt árennilegt enda næsta víst að ég tala ekki sama tungumál og sá sem svarar. Gasleiðslurnar mínar eru því óskoðaðar.
Ég ákvað í dag að gera eitthvað í málunum. Ég skrapp á skrifstofu gas fyrirtækisins — sem ég hafði rekist á fyrir tilviljun um síðustu helgi. Mér finnst alltaf betra að tala við fólk augliti til auglitis heldur en í gegnum síma — sér í lagi þegar ég tala ekki sama tungumál og viðmælandinn.
Ég gekk inn á skrifstofuna og spurði hvort það væri einhver enskumælandi hér inni. Ein afgreiðslukonan kinnkaði kolli og sagðist tala smá ensku. Ég sýndi henni bréfið. Hún leit á bréfið, benti á símanúmerið og sagði: "You must call that number!" Ég spurði hana hvort henni þætti líklegt að viðmælandi minn myndi tala ensku. Hún svaraði því neitandi. Ég spurði hana hvort hún væri til í að hringja fyrir mig í númerið og redda málunum. Hún leit á mig vonleysis augum og endurtók: "You must call that number!" Ég held hún hafi haldið að ég hafi ekki skilið hana í fyrsta skiptið.
Ég tók mér stundarkorn til að hugleiða hvernig ég gæti útskýrt fyrir konunni að ég talaði hvorki spænsku né katalónsku og væri því ekki fær um að hingja í viðmælanda sem ekki talaði ensku. Áður en hugleiðslunni lauk barst mér hjálp frá samstarfsmanni konunnar. Hann kom og spurði mig (á spænsku) hvenær ég væri heima hjá mér. Ég svaraði (á spænsku): "morgun, níu, tíu." Maðurinn tók bréfið, gekk að næsta síma og hringdi í númerið. Eftir smá stund kom hann til baka og spurði (á spænsku) hvort mánudagur milli níu og tíu væri í lagi. Ég játti því. Málið leyst.
Ég á því stefnumót við gas eftirlitsmanninn. Eða það held ég. Þar sem að ég er ekkert sérlega sleipur í spænskunni þá getur verið að við höfum komist að samkomulagi um eitthvað allt annað. Hver veit nema ég hafi samþykkt að vera heima á milli níu og tíu á mánudaginn svo að einhver gæti komið til þess að fjarlægja úr mér nýrað sem ég lofaði að gefa systur bankastarfsmannsins á mánudaginn var (sjá hér).