Alþjóðafulgvallarháskólasamfélag
Ég las frétt á mbl.is um að náðst hafi samkomulag milli Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar og Háskóla Íslands um ,,… að efla alþjóðlegt háskólanám hérlendis, byggja upp háskólasamfélag á Keflavíkurflugvelli og laða þangað erlenda nemendur og kennara …“ Mér líst vel á markmið samkomulagsins um eflingu alþjóðlegs háskólanáms. Hins vegar fæ ég ekki með nokkru móti skilið hvers vegna þarf að byggja upp háskólasamfélag á Keflavíkurflugvelli.
Ég man eftir því að þegar ég var í Háskólanum þá kvörtuðu líffræðinemar — skiljanlega — yfir því hversu óþægilegt væri að vera með aðstöðu á Grensásvegi — langt frá aðal kjarna háskólasvæðisins. Ég hef nú ekki verið mikið á Íslandi undanfarin ár, en mig minnir samt að Keflavíkurflugvöllur sé heldur lengra frá kjarna háskólasvæðisins heldur en Grensásvegur.
Ég geri ráð fyrir að röksemdafærslan fyrir hugmyndinni sé eitthvað á þessa leið. Við viljum byggja upp alþjóðlegt háskólasamfélag. Til þess þurfum við erlenda nemendur og kennara. Fólk kemur erlendis frá til Íslands með flugvél. Þess vegna er tilvalið að hafa alþjóðlegt háskólasamfélag á flugvelli. Skotheld lógík. Það er að segja ef að við gefum okkur sem forsendu að tilvalið sé að hafa alþjóðlegt háskólasamfélag á flugvelli.
Ég hef búið erlendis í rúmlega sex ár. Ég dvaldist lengstum í alþjóðlegu háskólasamfélagi í Amsteredam en er nú að vinna fyrir alþjóðlegt fyrirtæki í Barcelona. Á þessum tíma hef ég ekki orðið var við að það skaðaði alþjóðlega samfélagið að vera ekki staðsett á flugvelli. Þvert á móti. Ég tel næsta víst að nálægðin við borgarsamfélag sé mun mikilvægari þáttur.
Mér finnst afar subbulegt ef það á að fara að nota Háskóla Íslands í pólitískum tilgangi til þess að friða kjósendur á Suðurnesjum. Staðsetning Háskóla Íslands í Reykjavík er mun betra aðdráttarafl fyrir erlenda nemendur og kennara heldur en staðsetning Háskóla Íslands á alþjóðaflugvelli. Þar sem að erlendir nemendur og kennarar munu að öllum líkindum vilja dvelja lengur en hálftíma í alþjóðlega háskólasamfélaginu þá munar þá ekkert um að taka rútuna til Reykjavíkur.