Tímasetningahlutagreining
Í síðustu viku sagði ég frá því þegar ég skrapp í heimsókn til gasveitunnar og pantaði tíma fyrir gas eftirlit. Heimsóknin einkenndist fyrst og fremst af samskiptaörðugleikum vegna þess að ég er ekki enn búinn að ná góðum tökum á spænskunni. Eftir heimsóknina taldi ég þó víst að ég ætti von á eftirlitsmanni þann 19. mars 2007, milli 9 og 10. Ég byggði þann skilning að miklu leyti á því að maðurinn hjá gasveitunni hafði skrifað á blað fyrir mig eftirfarandi setningu: ,,19/03/2007, 9 a 10“ Ég taldi næsta víst að þetta mætti þýða á íslensku sem: ,,19/03/2007, 9 til 10“ Ég beið því í morgun spenntur eftir því að fá gas eftirlitsmann í heimsókn milli níu og tíu.
Klukkan sló níu. Klukkan sló tíu. Klukkan sló hálf ellefu. Ekki kom neinn til þess að líta eftir gasleiðslunum mínum. Ég gafst upp á biðinni og hélt í vinnuna. Þegar þangað var komið bað ég vinnufélagana þýða fyrir mig setninguna ,,19/03/2007, 9 a 10“ Þá kom í ljós að þessi setning þýðir alls ekkert ,,19/03/2007, 9 til 10“ Rétt þýðing er einnhvað á þessa leið: ,,ætl’ekki þann 19/03/2007, líklega einhvern tíman fyrir hádegismat“
Nákvæmar tímasetningar eru víst ekki mikils virði hér um slóðir. Þær ber að túlka sem grófa nálgun á mun stærra og óræðara tímabili.