Hjólaferð
Þar sem að það var langt um liðið síðan ég hjólaði seinast þá taldi ég skynsamlegast að fá mér auðveldan hjólatúr í dag. Hjóla kannski niður að sjó og meðfram ströndinni. Tilvalið væri að slaka á og venjast hjólinu.
Skynsemis röddin er hins vegar ekki sú rödd sem gellur hæst í mínu höfði þegar kemur að hjólaferðum. Í stað þess að taka daginn rólega á ströndinni ákvað ég þvert á móti að halda til fjalla. Nánar tiltekið skellti ég mér upp á Tibidabo — 512 metra hátt fjall ofan Barcelona.
Hjólaferðin var heldur strembin á köflum og þegar ég var hálfnaður upp þá var ég við það að gefast upp. Bæði sökum þreytu og hita. Líklegast þó samsulli af hvoru tveggja. Er ég hugðist halda niður á leið dró fyrir sólu og ég ákvað að halda áfram ferðinni upp fjallið.
Eftir að hafa villst smá á leiðinni upp tókst mér að komast á toppinn. Laun erfiðisins voru meðal annars fallegt útsýni yfir borgina. En eftir að ég hafði rétt náð andanum á toppnum féllu nokkrir dropar úr lofti. Ég stökk því á bak hjólhestsins á ný og flýtti mér niður ef veðurguðirnir myndu ákveða að gera einhverja alvöru úr rigningunni. Svo var nú þó ekki og mér tókst að komast tiltölulega þurr í hús. Eða öllu heldur voru fötin mín heldur blaut af svita en regni.