Barcelona — Montserrat ?>

Barcelona — Montserrat

Ég var snemma á fótum á þessum fyrsta degi í sumarfríi. Ég fékk mér kaffi og með því og útbjó smá nesti. Klukkan hálf níu hitti ég svo vinnufélaga minn eins og um hafði verið samið fyrir utan dyrnar hjá mér. Það að hitta vinnufélaga snemma morguns er kannski ekki dæmigerð lýsing á fyrsta degi í símarfríi. Hljómar heldur eins og fyrsti dagur eftir sumarfrí. Það var nú hins vegar engin hefðbundin vinna sem beið okkar vinnufélaganna þennan laugardagsmorgun. Þvert á móti skelltum við okkur hvor á sinn hjólhestinn og settum stefnuna á Santa María de Montserrat  — munkaklaustur í nágrenni Barcelona — eftir ,,þjóðvegi“ GR-6.

Fyrsti hluti ferðarinna lá upp í móti — upp á Tibidabo — eftir einum af aðal akvegunum yfir fjallið. Þetta var kunnugleg leið enda hafði ég hjólað um þessar slóðir einu sinni áður. Það eina sem kom mér á óvart var hversu auðveld brekkan var. Fyrri kynni mín af brekkunni voru talsvert önnur. Ég var greinilega í betra hjólaformi en ég ég hafði verið fyrir fáeinum mánuðum.

Áður en toppi Tibidabo var náð beygðum við út af aðalveginum og inn á fáfarinn malarveg sem lá niður brekkuna hinum megin fjallsins. Það var vinnufélaginn sem stjórnaði feriðnni enda heimamaður sem þekkir fjallið mun betur en ég. Niðurferðin lá í gegnum skóglendi og við hjóluðum ýmist eftir malarvegum og skógarstígum.

Er við komum af fjallinu hjóluðum við í gegnum Sant Cugat — heimabæ vinnufélagans — og héldum síðan áfram í gegnum skóglendi, yfir hæðir og hóla, til bæjarins Les Fonts. Eins og nafnið gefur til kynna eru í bænum vatnsbrunnar. Við stoppuðum við einn slíkan til þess að fylla á vatnsbrúsana og fá okkur smá snarl.

Þegar hér var komið við sögu var farið að draga af vinnufélaganum. Hann var kominn með þreytuverki í kálfa og læri. Hann sagðist þó vilja halda áfram eftir snarlið. Við hjóluðum því í gegnum Les Fonts og aftur inn í skóglendið hinum megin bæjarins. Það leið hins vegar ekki langur tími þar til vinnufélaganum fannst nóg komið. Hann var gersamlega búinn að vera. Við hjóluðum því til baka til Les Fonts og tókkum lestina til baka — vinnufélaginn til Sant Cugat og ég til Barcelona. Að skilnaði ákváðum við að halda hjólatúrnum áfram í næsta mánuði.

Fyrsti dagur hjólasumarfrísins varð því heldur styttri en ég hafði gert ráð fyrir. Kannski bara ágætt að reyna ekki um of á sig á fyrsta degi.

Hér má sjá kort af hjólaleiðinni.

Skildu eftir svar