Barcelona — Montseny ?>

Barcelona — Montseny

Ég vaknaði snemma á öðrum degi í sumarfríi. Ég fékk mér kaffi og smá morgunmat áður en ég kláraði að pakka niður nokkrum flíkum og útbúa nesti. Klukkan sjö var ég kominn út á götu með hjólið mitt tilbúinn að leggja af staði í fríið.

Fyrsti hluti ferðarinnar lá í gegnum norðurhluta Barcelona í átt að þjóðvegi BV-5001. Ég hafði ekki nennt að taka með mér borgarkort af Barcelona og varð því að þræða göturnar eftir minni. Ég hafði aldrei farið um þennan borgarhluta áður en hafði skoðað leiðina á korti og lagt nokkur götuheiti á minnið. Þetta var í sjálfu sér ekkert flókin leið en í ljósi þess að ég er ekki ratvísasti maður í heimi þá gat allt gerst. Ferðin gekk hins vegar vel til að byrja með. Þegar á leið var ég ekki viss um að ég væri nákvæmlega á þeirri leið sem ég hafði ákveðið en ég var viss um að ég væri nokkurn veginn á leiðinni í rétta átt. Til þess að gera stutta sögu enn styttri þá tókst mér að komast á réttan þjóðveg án þess að villast nokkuð að ráði. Fyrsta áfanga var því lokið með glæsibrag.

Annar áfangi ferðarinnar var heldur tíðindalítill. Ég hjólaði sem leið lá eftir þjóðvegi BV-5001 meðfram ánni Besos til bæjarins Sant Celoni. Ég kom þangað þremur tímum eftir að ég lagði af stað. Fyrstu fimmtíu kílómetrarnir voru að baki. Einungis þrjátíu kílómetrar eftir af fyrstu dagleið og allt hafði gengið samkvæmt áætlun. Það var því sáttur ferðalangur sem hjólaði í gegnum Sant Celoni.

Þegar Sant Celoni var að baki fór ég smám saman að átta mig á því hvert ég stefndi. Vegurinn tók að halla upp í móti og framundan blöstu frekar há fjöll. Þeirri hugsun laust niður í huga mér að ef til vill hefði ekki verið skynsamlegt að bóka fyrstu gistinguna á hóteli í 1100 metra hæð yfir sjávarmáli. Mig fór að gruna að næstu þrjátíu kílómetrar yrðu ekki eins náðugir og þeir fimmtíu sem voru að baki. Ég áttaði mig á því að þeir þrjátíu kílómetrar sem voru framundan væru líklega erfiðir einir og sér sem full dagleið — jafnvel án farangurs.

Hjólaferðin sem fyrir nokkrum mínútum hafði verið auðveld og þægileg stefndi nú í að verða ómöguleg. Þessi uppgötvun mín reyndist svo yfirþyrmandi að ég neyddist til að stoppa og fá mér seinni morgunmatinn. Það var alveg ógerandi að takast á við hið ómögulega á næstum tómum maga. Ég stoppaði við ferðamannamiðstöð, settist á bekk og nartaði í nestið mitt.

Ég held að maturinn hafi gert mér gott. Ég gat farið að hugsa aðeins skýrar. Ég hugsaði sem svo að jafnvel þótt hamarinn framundan væri ókleifur þá væri klukkan ekki nema hálf ellefu fyrir hádegi og ég hefði í raun næstum allan daginn til þess að berjast við fjallið. Ég lagði því af stað á ný út í óvissuna. Ég fikraði mig upp fjallið kílómetra fyrir kílómetra. Samkvæmt GPS tækinu mínu ,,geystist“ ég áfram á fimm til sjö kílómetra hraða á klukkustund. Mér fannst ég vart hreyfast úr stað.

Á rétt rúmlega kílómetra fresti stoppaði ég til þess að ná andanum og fá mér vatnssopa. Ég notaði tækifærið til þess að líta á kort og athuga hvort ég gæti fundið nafnið á síðusta bóndabæ sem ég hafði hjólað framhjá. Ég reyndi síðan að lesa í hæðalínur til þess að reyna að meta hversu hátt ég var kominn. Oftast varð ég fyrir vonbrigðum með það hversu stutt ég hafði hjólað síðan ég leit á kortið síðast. Þannig gekk ferðin fyrir sig kílómetra eftir kílómetra, stopp eftir stopp, klukkutíma eftir klukkutíma. Ég varð sífellt þreyttari og þreyttari.

Í hverju stoppi stappaði ég í mig stálinu og hvatti sjálfan mig af stað aftur. Ég var staðráðinn í að sigrast á fjallinu þó ég væri á stundum næstum örmagna af þreytu. Þegar ég var hvað þreyttastur á klifrinu hugsaði ég með mér: ,,Eftir því sem þú klifrar hærra þeim mun nær ertu toppnum. Eftir því sem þú nálgast toppinn þá áttu eftir minna klifur ófarið. Því minna klifur þeim mun auðveldari er að hjóla.“ Þessi einfalda formúla dugði til þess að fá mig til þess að halda áfram upp brekkun í átt að toppnum.

Á vissum punkti á leiðinni upp fannst mér vatnsbirgðirnar vera hættulega lágar. Sem betur fer hjólaði ég fram á bóndabæ stuttu síðar. Ég drap á dyr og spurði húsfreyjuna hvort hún ætti vatnssopa handa mér. Hún játti því og benti mér á krana í garðinum fyrir framan bæinn. Ég þakkaði með þökkum skrúfaði frá krananum og lét renna í brúsann minn. Þegar ég var hálfnaður að fylla brúsann stoppaði húsfreyjan mig og sagði ,,Bara smá.“ Hún leit ofan í brúsann og sagði ,,Já, þetta er fínt.“ Ég brosti og þakkaði fyrir mig. Þó að brúsinn væri ekki nema hálf fullur þá grunaði mig að þessi vatnssopi gæti reynst afar dýrmætur þegar fram liðu stundir.

Samkvæmt kortinu virtist mér hæsta tindi vera náð þegar farið væri í gegnum stutt göng.  Það var að vísu svolítið erfitt að lesa í hæðalínur við göngin en ég taldi mér trú um að þegar í gegnum þau væri komið þá væri toppnum náð. Þá tæki við að minnsta kosti jafnslétta eða jafnvel brekka niður á við. Þegar tók að líða á ferðina og ég varð þreyttari og þreyttari þá urðu göngin í mínum huga tákngervingur þess að hafa sigrað fjallið. Þegar ég væri kominn í gegnum göngin þá væri björninn unninn. Framhaldið yrði heldur fáfengilegt.

Það var óhemju góð tilfinning sem fór um mig þegar sá fyrst glytta í gangnamunann ofar í fjallinu. Þá voru liðnir tæpir þrír tímar síðan ég stoppaði til að fá mér seinni morgunmatinn. Í þrjá tíma hafði ég sniglast áfram upp brekkuna — fimm kílómetra á klukkustund. Nú var ég var næstum kominn á toppinn. Ég þurfti bara að hjóla inn fjallshlíðina mín megin og út fjallshlíðina hinum megin og þá væri ég kominn að göngunum. Ég fann auka skammt af orku flæða um líkamann. Ég steig fastar á pedalana og hélt áfram upp brekkuna í átt að göngunum. Fyrr en varði var ég kominn að gangnamunanum. Tíu sekúndum síðar var ég kominn í gegnum göngin.

Það var vissulega rétt það sem mig hafði grunað. Handan gangnanna var vegurinn mun nær því að geta talist jafnsléttur. Það sem mig haði hins vegar ekki órað fyrir var að vegurinn myndi halda áfram upp á við — ekkert sérlega brattur en upp í móti samt sem áður. Það voru því vissulega vonbrigði að vegurinn skildi ekki liggja niður í mót strax eftir göngin. Sú staðreynd að göngin voru að baki var hins vegar uppörvandi. Ég gat huggað mig við það að þetta gæti ekki gengið svona mikið lengur. Fyrr en síðar hlyti að fara að halla undan fæti í hina áttina. Ég hélt því áfram uppteknum hætti. Barðist við að hjóla upp brekkuna milli þess sem ég stoppaði til þess að fá mér sopa af vatninu sem ég náði að kría út úr bóndakonunni fyrr um daginn.

Um hálftíma eftir að ég kom í gegnum göngin kom ég til bæjarins Santa Fé. Það var kærkomið að fá sér smá hvíld og síðast en ekki síst að fylla á vatnsbrúsana úr brunni bæjarins. Þegar ég kom til Santa Fé var ég nánast á síðasta dropanum frá bóndakonunni góðu.

Eftir Santa Fé hélt ég áfram upp í móti — upp hæfilega bratta brekkuna. Um hálftíma síðar snérist taflið við. Hápunkti dagsins var náð í 1308 metra hæð yfir sjávarmáli. Við tók brekka niður á við. Það var afar þreyttur og feginn hjólreiðamaður sem lét sig renna niður brekkuna. Brunið reyndist heldur stutt því að á innan við korteri náði ég áfangastað dagsins — Sant Marcal de Montseny — gömlu munnkaklaustri sem hefur verið breytt í hótel. Tæplega áttatíu kílómetra og tæplega átta klukkutíma hjólaferð var á enda.

Seinni hluti dagsins var heldur tíðinda minni en hinn fyrri. Ég fór í sturtu, fékk mér síestu, fékk mér kvöldmat, lagði læri og kálfa í bleyti í heitu baði og fór að sofa — þreyttur eftir erfiðan dag.

Þegar ég lít til baka þá er ég nokkuð viss um að þetta hafi verið einn erfiðasti dagur í mínu lífi. Ef ég hefði vitað fyrirfram hversu erfitt þetta yrði þá hefði ég ekki skipulagt ferðina á þennan hátt. Ég er því afar feginn því að ég vissi ekki fyrirfram hversu erfitt þetta yrði því þá hefði ég skipulagt ferðina á annan hátt og hefði aldrei upplifað spennuna og áskorunina sem felst í því að takast á við það sem er á mörkum þess sem líkaminn ræður við. Ég sé svo sannarlega ekki eftir einum einasta svitadropa.

Að lokum, hér er kort af hjólaferð dagsins.

Skildu eftir svar