Les Agudes
Á seinni degi mínum í Montseny þjóðgarðinum ákvað ég að ganga eftir sömu slóð og á þeim fyrri. Þó ekki í sömu stefnu. Ég fylgdi GR 5.2 í hina áttina, meðfram Les Agudes í áttina til Turó de l’Home — hæsta tinds Montseny. Raunar eru tindarnir tveir jafn háir samkvæmt kortinu — 1706 metrar — en einhverra hluta vegna fær Turó de l’Home alltaf heiðurinn af því að vera talinn hærri.
Eins og fyrri daginn lá göngustígurinn í gegnum skóglendi. Að þessu sinni byrjaði gangan í aflíðandi brekku sem breyttist snögglega í bratta brekku er ég nálgaðist rætur Les Agudes. Eftir dágóða göngu eftir bröttum stíg tók við ganga upp grjótskriðu og smám saman breyttist ferðin úr göngu í klifur. Þó ekkert alvöru kletta klifur heldur klifur upp bratta fjallshlíð.
Milli þess sem ég klifraði stoppaði ég til þess að njóta útsýnisins yfir fjöllin í kring. Mér gafst gott tækifæri til þess að berja augum fjallið sem ég kleif daginn áður frá nýju sjónarhorni og lék mér við að reyna að giska á hvar í skóginum göngustígurinn hafði legið.
Eftir að hafa klifrað um stund ákvað ég að láta þetta gott heita. Bæði vegna þess að ég var ekki í réttum skóm í svona göngu (var bara með hlaupaskó með mér) og vegna þess að ég vildi spara orku fyrir hjólaferð morgundagsins. Ég hélt því sömu leið til baka og fékk mér ríkulegan eftirmiðdagsmat og langa síestu.
Eftir síestuna tók ég fram korin mín og byrjaði að undirbúa hjólaferð morgundagsins. Þar sem ég hafði vanmetið hversu erfið fyrsta sérleiðin yrði þá var ég frekar hræddur um að kannsi hefði ég einnig vanmetið erfiðleika þeirrar næstu. Ég efaði að ég megnaði aðra eins erfiða ferð og á sunnudaginn — að minnsta kosti ekki án þess að fá meiri hvíld á milli. Ég stúderaði því kortin mín til þess að reyna að lesa úr þeim hvað morgundagurinn bæri í skauti sér. Gallinn var hins vegar sá að ég hafði einungis nákvæm kort (á skala 1:25000) af fyrsta og síðasta hluta leiðarinnar. Miðkaflann átti ég einungis á stóru korti (skala 1:300000) sem sýndi engar hæðalínur. Ég gat lesið af nákvæmu kortunum að fyrsti hlutinn yrði lækkun úr 1100 metrum niður í 750 metra og síðasti hlutinn yrði lækkun úr 850 metrum niður í 500 metra. Rúmur helmingur leiðarinn var hins vegar á milli þessara korta. Ég gat því einungis getið mér til um það hvað þar biði mín. Ég taldi mér þó trú um að ég ætti ekkert sérlega erfiðan dag fyrir höndum — nema ef ske kynni að á milli kortanna væri mjög djúpur dalur.