Febrúarbækur
Fyrir mánuði síðan kom ég út úr bókaskápnum, viðurkenndi lestrarleti mína, hleypti lestrarátaki af stokkunum og tilkynnti umheiminum frá því að ég stefndi að því að klára þrjár bækur í hverjum mánuði þessa árs. Nú er febrúar senn liðinn og rétt að greina frá því hvernig mér miðar áfram.
Í síðustu færslu steig ég varlega til jarðar með því að skilgeina markmið mitt þannig að bók teldist með ef hún væri kláruð í mánuðinum, óháð því hvenær ég byrjaði á henni. Í færslu þessa mánuðar ætla ég að halda áfram útvíkkun skilgreiningarinnar á kláraðri bók þannig að ég ætla ekki að setja sem skilyrði að ég þurfi að hafa lesið bókina, svo framarlega sem hún er kláruð.
Það kann að hljóma undarlega að þáttakandi í lestrarátaki geti fengið plús í kladdann án þess að lesa bók. Hvernig er hægt að segjast hafa kárað bók án þess að hafa lesið hana? Svarið er einfalt. Það er hægt að láta lesa fyrir sig.
Í febrúar kláraði ég þrjár bækur. Þar af las ég eina en hlustaði á tvær hljóðbækur.
Fyrsta bókin sem ég kláraði í mánuðinum var bókin Stein on Writing eftir Sol Stein. Í október á síðasta ári mælti kunningi minn með þessari bók. Mér leist strax vel á bókina og hugðist næla mér í Kindle útgáfuna þar sem ég er að reyna að draga úr pappírsneyslu. Bókin reyndist hins vegar ekki fáanleg fyrir kyndilinn. Ég stóð því frammi fyrir vali milli þess að kaupa hana sem kilju eða prófa hvernig það er að hlusta á hjóðbók. Ég skellti mér á hljóðbók.
Það tók mig talsverðan tíma að komast upp á lagið með það að hlusta. Ég prófaði í nokkra daga að hafa bókina í eyrunum samhliða því sem ég rölti til og frá vinnu. Ég er hins vegar ekkert sérlega sleipur við það að gera tvennt í einu og ályktaði að ef ég vildi forðast það að verða fyrir bíl þá væri best að skilja iPodinn eftir heima. Eftir að hafa eytt nóvember og desember á flakki þá var það ekki fyrr en í janúar sem ég gaf ég mér almennilegan tíma til þess að læra að hlusta. Það var síðan í febrúarbyrjun sem ég kláraði mína fyrstu hljóðbók.
Ég naut þess að hlusta á Sol Stein miðla reynslu sinni sem rithöfundur og ritstjóri. Bókin gaf mér góðar ábendingar varðandi það hvernig ég gæti bætt mín eigin skrif, bæði með hliðsjón af smásagnasafninu sem ég gaf út í sumar og skáldsögunni sem ég er að vinna í þessa dagana. Ég á hiklaust eftir að grípa í þessa bók af og til næstu mánuðina. [ritdómur á goodreads]
Önnur bók febrúarmánaðar var einnig hljóðbók. Ég hlustaði á ævisögu Steve Jobs eftir Walter Isaacson. Það var gaman að kynnast þessari margslungnu persónu, innsæi hans, skapgerð og undarlegu mataræði. Þar að auki fræddist ég heilmikið um sögu tækniþróunar undanfarinna áratuga. Það var skemmtilegt að fá innsýn inn í heimspeki Steve Jobs varðandi það hvort tækni ætti að fylgja opnum stöðlum eða lokuðum. Sem tölvunarfræðingur og rithöfundur þá var naut ég þess að kynnast manni sem staðsetti sig á krossgötum raunvísinda og hugvísinda. [ritdómur á goodreads]
Þriðja og síðasta bók mánaðarins var Valeyrarvalsinn eftir Guðmund Andra Thorsson. Að þessu sinni naut ég bókarinnar upp á gamla mátann og las hana á pappírsformi. Bókin var nokkuð góð lesning. Guðmundur Andri er afar fær stílisti og textinn hans er sannkallað konfekt. Það er hins vegar með vel skrifaðan prósa eins og önnur sætindi að næringargildið á það stundum til að vera helst til rýrt. Að þessu leyti varð ég fyrir smá vonbrigðum með bókina. Söguþráðurinn fannst mér heldur þunnur og sögupersónurnar náðu því miður ekki að vekja sterkar tilfinningar innra með mér. [ritdómur á goodreads]
Ég er afar ánægður með að vera á áætlun í lestrarátaki mínu — hvort sem ég les sjálfur eða læt lesa fyrir mig. Ég er enn að prófa mig áfram með hljóðbækur og meta ágæti þeirra fyrir mig. Ég er mikill sveimhugi og þó ég hafi heyrnartól í báðum eyrum þá eiga orð það til að fara inn um annað og út um hitt. Þegar ég hlusta á hljóðbækur þá þarf ég því að passa mig að vera ekki að gera neitt annað á sama tíma svo ég geti einbeitt mér að hlustuninni.
One thought on “Febrúarbækur”
Comments are closed.