Má ég gista hjá þér í nótt?
Ég gekk í gærkvöldi eftir stræti í Barcelona, á heimleið heim eftir að hafa spjallað við vin minn yfir bjór á kránni, þegar ung kona stöðvaði mig á förnum vegi.
„Má ég gista hjá þér í nótt?“ spurði hún.
Það tók mig nokkur andartök að melta spurninguna. Hún gekk á lagið og hélt áfram að flytja sitt mál.
„Ég bý á götunni. Sef í anddyrum banka. Það er mjög hættulegt fyrir konur, þú veist. Má ég gista hjá þér? Bara eina nótt.“
Hún sló mig út af laginu. Jafnvel þótt ég sé ýmsu vanur eftir að hafa búið um nokkurra ára skeið hér í Barcelona þá var þetta í fyrsta sinn sem ég heyrði þvílíka spurningu frá vegfaranda úti á götu. Eftir nokkrar sekúndur kom ég til sjálfs mín og sagði konunni að því miður gæti ég ekki orðið við bón hennar.
Þetta atvik vakti mig til umhugsunar um það hvernig skortur á trausti í samskiptum fólks stendur í vegi fyrir góðmennsku einstaklinga.
Mig hefði í sjálfu sér lítið munað um að skjóta skjólshúsi yfir konuna og leyfa henni að gista eina nótt á sófanum í stofunni. Það hefði ekki kostað mig mikið að bjóða henni að borða með mér hafragraut og kaffi í morgun. Þvert á móti þá hefði mér líklega liðið vel yfir því að vita til þess að ég hefði getað veitt hjálparhönd þeim sem þess þurfa. Heilbrigð skynsemi sagði mér hins vegar að halda mína leið og neita konunni um greiðann.
Hversu öfugsnúið það er að lifa í samfélagi þar sem heilbrigð skynsemi segir mér að hjálpa ekki náunganum í neyð? Getur verið að heilbrigð skynsemi í óheilbrigðu umhverfi leiði til óheilbrigðra ákvarðanna?
Lítum á þetta atvik sem leik með fjórum mögulegum útkomum (sjá mynd).
- Hjálpari og hjálparþegi vinna þegar hjálpari hjálpar heiðarlegum hjálparþega.
- Hjálpari tapar með því að hjálpa óheiðarlegum hjálparþega.
- Heiðarlegur hjálparþegi tapar ef hjálpari hjálpar ekki.
- Ekkert gerist þegar hjálpari hjálpar ekki óheiðarlegum hjálparþega.
Hjálparinn á fyrsta leik. Hann þarf að ákveða hvort hann hjálpar eða hjálpar ekki, án þess að vita hvort hjálparþeginn sé heiðarlegur eða óheiðarlegur.
Þar sem ég er tiltölulega áhættufælinn einstaklingur og bý í borg sem er heimsþekkt fyrir klóka svindlara og smáþjófa þá segir hyggjuvitið mér að forðast það í lengstu lög að hjálpa óheiðarlegu fólki. Slík hjálpsemi muni að öllum líkindum leiða til þess að ég tapi peninugm eða öðrum eigum. Þar sem ég á erfitt með að greina á milli heiðarlegra og óheiðarlegra hjálparþega þá er besti leikur minn í stöðunni að hjálpa ekki. Þar með ótiloka ég einnig bestu mögulegu útkomu þar sem allir vinna. Hversu heilbrigt er það?
Fyrir þá sem hafa gaman að þessari pælingu þá mæli ég með bókinni How to be good eftir Nick Hornby. Þar segir hann sögu konu sem lendir í þeim hremmingum að eiginmaður hennar — reiður og ófyrirleitinn dálkahöfundur — tekur upp á þeim óskunda að gerast einstakt góðmenni.