Ísland — Frakkland
Ég skrapp á tvo handboltaleiki í dag. Ég byrjaði á að sjá slaka Þjóðverja rúlla yfir enn slakari Makedóna. Síðari leikurinn var heldur meira spennandi þar sem ég sá Frakka merja nauman sigur á Íslendingum.
Á milli leikja skellti ég mér á tapas stað til þess að safna orku fyrir átökin. Á leiðinni út af staðnum kom ég við á borði franskra stuðningsmanna og fékk lánaða hjá þeim andlitsmálningu sem ég notaði til þess að mála íslenskan fána á handarbakið.
Strax í fyrri leiknum varð mér ljóst að sætið mitt var innan um nokkra Frakka. Þegar ég mætti á svæðið fyrir seinni leikinn þá varð mér ljóst að ég var ekki bara innan um nokkra frakka heldur var ég einn íslendingur inni í miðjum hóp áköfustu stuðningsmanna franska liðsins.
Þegar ég hafði komið mér fyrir í sætinu komu leiðtogar stuðningsliðsins til mín einn af öðrum og buðu mér að fá rauðar, hvítar og blárar rendur málaðar á kinnarnar. Ég streytti fánalituðum hnefanum framan í þá og sagðist vera nægilega málaður.
Leikmennirnir gengu inn á völlinn og þjóðsöngur Frakka var leikinn. Stuðningsmennirnir frönsku tóku hressilega undir. Þegar komið var að íslenska þjóðsöngnum beindust allnokkur augu að mér og ég fann mig knúinn til þess að láta mitt ekki eftir liggja og syngja einsöng innan um Frakkana. Þó sjaldan hafi verið níðst jafn illilega á íslenska þjóðsöngnum með viðlíka falskri útsetningu þá fékk ég ágætis hrós frá Frökkunum að gjörningnum loknum.
Leikurinn var afar spennandi eins og alþjóð veit. Inni á vellinum skiptust liðin á að skora. Á áhorfendabekkjunum skiptust franska stuðningsliðið og ég á að hoppa út sætunum og fagna. Það var vissulega undarleg tilfinning að standa eins og klappandi mörgæs á kletti í miðjum hafsjó bláklæddra Frakka. Ég lét það hins vegar ekkert á mig fá og hélt mínu striki. Þegar leið á leikinn fór spánskt par sem sat fyrir aftan mig að taka undir með mér í klappinu. Það var einstaklega gaman að fá smá stuðning við stuðninginn.
Að leik loknum klöppuðum við öll saman fyrir báðum liðum sem spiluðu afar skemmtilegan handbolta og buðu upp á hörkuleik. Við skiptumst á heillaóskum, óheillaóskum, handaböndum og faðmlögum áður en ég stakk af og lét mig hverfa út í spænskt kvöldmyrkrið.