Olot — Figueres
Rétt eftir níu lagði ég af stað í síðasta eiginlega áfanga hjólaferðarinnar. Ferðinni var heitið til Figueres — heimabæjar Salvador Dalí. Samkvæmt planinu átti þetta að verða stysta og auðveldasta hjólaferðin. Það gekk eftir. Það voru engin meiriháttar fjöll á leiðinni — einungis smá hólar og hæðir, upp og niður. Mér gafst því bæði tækifæri til þess að reyna smá á kálfa og læri og til þess að bruna niður brekkur. Eftir því sem hólarnir og hæðirnar urðu fleiri fór ég þó að finna fyrir meiri og meiri þreytu. Þreytan var þó í engu lík þreytunni sem ég kynntist í síðustu tveimur sérleiðum.
Leiðin sem ég valdi milli Olot og Figueres lá um tvo markverða bæi. Annars vegar Santa Pau — sem er þekktur fyrir miðbæ frá miðöldum. Ég nennti ekki að taka neinar myndir því að byggingarnar voru heldur grámyglulegar í sólarleysinu. Ég ákvað þess í stað að ég yrði bara að heimsækja bæinn einhvern tíman seinna í sólskini til þess að athuga hvort bærinn njóti sín ekki betur í sólskini.
Seinni markverði bærinn var Banyoles. Bærinn er markverður fyrir þær sakir að hann liggur við fallegt stöðuvatn. Í tilefni komu minnar til bæjarins ákvað sólin að brjótast fram úr skýjunum svo að ég gæti tekið nokkrar myndir.
Það var hið ágætasta veður á leiðinni. Að mestu skýjað nema hvað sólin lét sjá sig í skamma stund í Banyoles og nágrenni. Sem betur fer varð ekkert úr úrhellis rigningunni sem var í kortunum um miðja vikuna. Þegar ég átti um þrjá kílómetra óhjólaða til Figueres komu þó nokkrir dropar úr lofti. Engin rigning að ráði heldur einungis smá úði. Það fór því ekki svo að ég næði að komast upp með viku frí í september án þess að fá á mig regndropa.
Ég var kominn til Figures rúmlega eitt og hafði því eftirmiðdegið til þess að kynna mér bæinn. Ég byrjaði á því að fá mér eftirmidegismat. Skrapp síðan og skoðaði helstu perlu bæjarins — Dalí safnið. Safnið er til húsa í gömlu leikhúsi. Dalí hannaði safnið með það fyrir augum að gestirnir upplifðu ferð sína í gegnum safnið sem leiksýningu.
Aðalstjarna sýningarinnar — sjálfur Salvador Dalí — stóð sig með mikilli prýði eins og við var að búast. Tveir aukaleikarar komu mér jafnframt skemmtilega á óvart — Evarist Vallès og Antoni Pitxot. Sá síðari fannst mér sérstaklega áhugaverður. Einnig komu margir statistarnir mér á óvart. Þeir fóru gersamlega hamförum í myndatökum. Sumir virtust skoða safnið í heild sinni í gegnum myndavélar linsu — súrealismi við hæfi. Sjálfur leyfði ég myndavélinni að hvíla í buxnavasanum. Keypti mér þess í stað bók um líf og störf meistara Dalí.
Eins og áður var ferðin kortlögð.