Stór borg í litlum heimi ?>

Stór borg í litlum heimi

Ég byrjaði daginn á því að fá mér handahófskenndan göngutúr um San Telmo hverfið í Buenos Aires. Þegar ég heimsæki stórborgir þá þykir mér fátt skemmtilegra en að rölta um af handahófi milli þess sem ég sest niður til þess að seðja þorsta, hungri og tjáningarþörf. Upp úr miðjum morgni gékk ég fram á afar huggulegt kaffihús sem bar það skemmtilega nafn La Poesía. Þó ég sé meira fyrir prósa en póesíu þá fannst mér þetta tilvalinn staður til þess að setjast niður og skrifa ferðasögur sem og aðrar sögur milli þess sem ég andaði að mér stemmingunni í borginni. Bleksvart kaffið rann um kokið og kaffisvart blekið rann úr pennanum.

be kind ... please

Ég hafði rétt lokið mér við að panta steikarsamloku og bjór þegar mér var litið í átt að barborðinu. Mér var skemmtilega brugðið við það að sjá kunnuglegt andlit. Bandarísk kona sem ég hafði hitt yfir morgunverði í Puerto Iguazú stóð við barborðið og spjallaði við eina afgreiðslustúlkuna. Ég gekk til þeirra og heilsaði. Það kom á daginn að sú bandaríska hugðist panta sér steikarsamloku til þess að taka með í rútuferð dagsins. Hún átti hins vegar í vandræðum með að koma afgreiðslustúlkunni í skilning um að hún vildi taka samlokuna með sér — sú bandaríska talaði ekki spænsku og sú argentínska ekki ensku. Ég tók því að mér starf túlks og kom pöntuninni til skila.

Við röbbuðum síðan saman ég, bandaríska konana og eiginmaður hennar á meðan við biðum eftir steikarsamlokunum okkar. Við ræddum hvað hafði á okkar daga drifið síðan við hittumst síðast og hvert ferðinni væri heitið. Það kom á daginn að við stefndum öll í suður átt til bæjarins Bariloche og því ekki loku fyrir það skotið að við ættum eftir að hittast enn á ný.

Það gaman til þess að vita að þó borgin sé stór þá er heimurinn nógu lítill til þess að hitta kunnuglegt fólk af tilviljun.

Comments are closed.