Cataratas de Iguazú
Í dag var kominn tími á það að skoða Iguazú fossana frá argentínska bakka árinnar. Eins og ég varð fyrir vonbrigðum með fossana á brasilíska bakkanum þá varð ég fyrir þveröfugum hughrifum við fossana Argentínu megin. Ég byrjaði á að virða fyrir mér fossana frá efri brún Djöflagljúfurs (Garganta del Diablo). Satt best að segja var það eitt magnaðasta fyrirbæri sem ég hef augum litið. Þvílíkur kraftur sem er í fossunum þar sem vatnið steypist fram af brúninni. Tilfinningunni verður ekki í orðum lýst og því betra að láta myndirnar tala sínu máli. Verst að þær ná ekki heldur að lýsa tilfinningunni.
Eftir að hafa skoðað fossana að ofan þá færði ég mig smám saman niður eftir bakkanum. Boðið var upp á margar merktar gönguleiðir milli útsýnispalla sem hver gáfu fallegra sjónarhorn á þessa mögnuðu fossa. Á vissum tímapunkti spurði ég sjálfan mig hvort ég ætti nokkuð að vera að því að taka enn eina mynd af fossunum. Ég var búinn að taka svo margar og hvert sjónarhorn virtist fegurra en það síðasta. Einhvern tíman verður maður að láta gott heita.
Það eina sem hugsanlega gæti komið nálægt því að skyggja á annars dásamlegan dag var sólin. Hún skein afar skært og hitinn var óbærilegur eftir því. Jafnvel heimamennirnir kvörtuðu sáran yfir hitanum. Hvað þá Íslendingurinn.
Aths: Ég bæti við myndum þegar ég hef tíma og kemst í betri nettenginungu.