Spænska fyrir aula
Eftir að hafa búið á Spáni í rúma sjö mánuði finnst mér kominn tími á að fara að læra smá spænsku. Hingað til hefur spænskukunnátta mín einskorðast við að geta pantað mér mat á veitingastöðum. Það má því segja að spænskukunnátta mín sé upp á þó nokkra fiska (rape, bacalao, salmón, taún, sardinas, merluza, o.s.frv.). Hins vegar er ekki hægt að segja að spænskukunnátta mín sé upp á marga fiska.
Ég skráði mig um daginn á byrjendanámskeið í spænsku. Eða svo taldi ég næsta víst. Það runnu hins vegar á mig tvær grímur þegar ég mætti í dag í fyrstu kennslustund námskeiðisins. Þar var kynnt kennslubók námskeiðsins: ,,AULA — curso de España“. Ég viðurkenni alveg að ég sé ekkert sérlega sleipur í spænsku en mér finnst nú full langt gengið að kalla þetta AULA námskeið í spænsku. Ég hefði nú heldur kosið byrjenda námskeið í spænsku.