Bókatíðindi
Betra er seint en aldrei í rassinn gripið segir máltækið kannski ekki alveg. Því er hins vegar ekki að neita að ég er heldur seinn að segja dagbókinni í lok október fréttir af því sem ég var að dunda mér við í sumar.
Ég tók mér langt sumarfrí frá tölvuheiminum og lét gamlan draum rætast. Ég gaf út mína fyrstu bók. Bókin ber nafnið 999 Erlendis (999 Abroad á ensku) og er safn smásagna sem ég hef verið að dunda við að skrifa undanfarin ár. Sögurnar segja flestar frá lífi Íslendings í útlöndum. Þess vegna sótti ég titil bókarinnar í Þjóðskrá Íslands. 999 Erlendis er nefnilega póstnúmer og sveitarfélag Íslendinga sem búsettir eru erlendis.
Efniviðinn í sögurnar sótti ég í mína eigin reynslu sem Íslendings í útlöndum. Flestar sögurnar eru byggðar á sönnum atburðum úr raunveruleikanum sem snúið er upp í skáldskap. Til dæmis þá er smásagan Hvað borða fiskar? byggð á dagbókarfærslunni Hvað borða fiskar? Í smásögunni segi ég til að byrja með nokkuð satt og rétt frá því sem raunverulega gerðist en leiðist svo smám saman út í að skálda sögulokin.
Það að gefa út bók var einstaklega lærdómsrík reynsla. Ég ákvað að sjá sjálfur um umbrot, kápugerð, útgáfu og markaðssetningu en fékk aðra til þess að sjá um prófarkarlestur, myndskreytingu og dreifingu. Upprunalega hugmyndin var að gefa bókina einungis út sem rafbók en ég lét til leiðast og gaf einnig út kilju. Reynslan af rafbókarútgáfunni hefur verið góð en Tollurinn hefur gert kiljuna helst til dýra fyrir þá sem vilja flytja bókina til Íslands.
Bókaútgáfan var afar skemmtileg tilbreyting frá hinu daglega amstri. Svo skemmtileg að ég hef ákveðið að gera hana hluta af hinu daglega amstri. Frá því í haust hef ég minnkað við mig vinnuna í tölvubransanum og nota tímann meðal annars til þess að vinna í skáldsögu sem ég stefni á að gefa út fyrir jólin 2013. Hvort sú áætlun gengur upp verður tíminn að leiða í ljós.