He perdido un … uhh … ehh … filling
Ég varð fyrir því óláni að missa fyllingu úr tönn. Ég skellti mér því til tannlæknis í dag til þess að láta líta á málið. Þó svo að spænskunámskeiðið mitt gangi vel þá erum við ekki búin að fara í gegnum orðaforðann sem tengist tannviðgerðum. Það verður að ég held ekki fyrr en í þarnæstu viku — milli þess sem við lærum orðaforðann sem tengist mjaðmaliðsaðgerðum og því að skipta um neðri spindilkúlu vinstra megin í 1984 árgerð af Subaru Legacy. Þessa stundina erum við að einbeita okkur að orðaforðanum sem tengist einfaldari aðgerðum eins og að vakna, fara að sofa, fá sér morgunmat, baða sig, o.s.frv.
En allavegana … þá fór ég til tannlæknis í dag án þess að kunna skil á spænsku tannlæknamáli. Það var því nokkuð skondið samskiptaferli sem átti sér stað. Ég byrjaði á að ræða við aðstoðar tannlækni. Hún spurði mig ýmissa spurninga sem svör urðu að fást við áður hægt væri að gera við tönn. Sumar spurningarnar voru mjög auðskildar: hvort ég reykti, hvort ég tæki lyfseðilsskyld lyf daglega, hvort ég væri með sjúkdóma á borð við lifrarbólgu, hvort ég hefði neytt kókaíns einhvern tíman á síðustu sjö dögum, o.s.frv. Þessum spurningum var auðsvarað.
Aðrar spurningar voru heldur strembnari. Eftir að hafa umorðað eina spurninguna þrisvar sinnum án þess að ég hefði hugmynd um hvað málið snérist ákvað aðstoðar tannlæknirinn að við færum í látbragðsleik. Það er að segja við lékum leikinn ,,Hver er spurningin?". Aðstoðar tannlæknirinn lék spurninguna með látbragði og ég þurfti að giska á hver spurningin væri — eins konar actionary.
Eftirfarandi hugsanir fóru um koll mér á meðan ég var að reyna að ráða í látbrgð astoðar tannlæknisins — sem lék sína rullu með miklum tilþrifum.
…. að skera sig á púls … hmmm … nei … ég fatta ekki spurninguna … þegar maður sker sig á púls spýtist út blóð … hmm …. nei … ég er ekki enn búinn að fatta hver spurningin er … þegar maður sker sig á púls spýtist út mikið blóð … hmm … aha … skil fyrr en skellur í tönnum!
Eftir að hafa fylgst með þessum glæsta látbragðsleiksigri aðstoðar tannlæknisins gat ég loksins svarað spurningunni um það hvort ég væri blæðari.
Eftir spurningaflóðið voru tennurnar mínar myndaðar og tannlæknir mætti á staðinn til þess staðfesta að fyllingu vantaði í tönn tuttuguogfjögur. Að því loknu gerði aðstoðar tannlæknirinn tilboð í tannviðgerðina og ég samþykkti tilboðið. Að lokum sömdum við um að gert yrði við tönnina á morgun — eða svo skildist mér allavegana.