Litlu jólin ?>

Litlu jólin

VIð héldum í dag upp á litlu jólin í vinnunni. Eins og er við hæfi á litlum jólum þá skiptumst við á gjöfum. Þar sem að við "Hollendingarnir" (fólk sem er með doktorsgráðu frá Hollandi) erum sterkur þrýstihópur í vinnunni þá varð það úr að haldið var upp á litlu jólin með hollenskri aðferð.

Hver lagði til tvær gjafir sem hvor kostaði um fimm evrur. Gjöfunum var síðan útdeilt af handahófi þannig að hver þáttakandi byrjaði leikinn með tvær gjafir. Við sátum síðan í hring og skiptumst á að kasta sex hliða teningi. Ef einn kom upp gaf hver þáttakandi hægri sessunaut sínum eina af sínum gjöfum. Ef tveir kom upp gaf hver þáttakankdi vinstri sessunaut sínum eina af sínum gjöfum. Þrír og fjórir voru ámóta nema gjöfin var gefin hægra/vinstra sessunaut hægra/vinstra sessunautar. Ef fimm kom upp mátti sá sem kastaði skipta á einni af sinni gjöf og einhvers annars gjöf að eigin vali. Ef sexa kom upp varð sá sem kastaði að opna eina af sínum gjöfum — og gjöfin varð þar með úr leik.

Eftir að við höfðum spilað leikinn um stund taldi einn fræðilegi tölvunarfræðingurinn sig geta sýnt fram á að tímaflækja leiksins væri allt of há — leiknum myndi ekki ljúka (þegar allar gjafirnar væru opnaðar) fyrr en seint og um síðir. Við breyttum því reglunum þannig að fleiri útkomur teningskasta hefðu það í för með sér að gjöf var opnuð. Þökk sé útreikningum fræðilega tölvunafræðingsins þá náði leikurinn markgildi sínu á um það bil klukkustund.

Skemmst frá að segja þá kom ég bara ágætlega út úr leiknum gjafalega séð. Annars vegar fékk ég stórt Lindt (ekki þó sérlega lint) rjómasúkkulaði með rúsínum og hnetum. Hins vegar fékk ég þessar fínu æpandi-rauðu (og jólalegu) thong nærbuxur. Ég held þær passi vel við bleiku fóðruðu handjárnin sem ég fékk á litlu jólunum í hitteðfyrra.

Skildu eftir svar