Er stysta röðin ávallt best? ?>

Er stysta röðin ávallt best?

Ég flaug í dag frá Barcelónu til Madrídar. Líkt og fyrri daginn þá spurði ég mig áleitinnar spurningar við innritunarborðið. Að þessu sinni spurði ég mig hvort stysta röðin væri ávallt sú besta.

Ég spurði mig þessarar spurningar eftir að hafa valið stystu röðina við innritunarborðin. Við borðið stóðu kona og lítil stúlka. Fyrir framan mig í röðinni var portúgalskt par. Það var allt og sumt.

Það gekk hægt að rita inn konuna og stúlkuna. Konan sem vann við innritunarborðið þurfti að ganga fram og til baka til þess að sækja pappíra. Konan með stúlkunni þurfti að fylla pappírana út. Allt tók sinn tíma. Eftir því sem ég komst næst þá ætlaði litla stúlkan að ferðast ein síns liðs. Því fylgir greinilega heilmikil papprísvinna.

Allar raðir gengu hraðar en mín. Mín barasta gekk ekki. Fólk sem hafði komið á eftir mér og valið röðina við hliðina á mér var þegar komið að innritunarborðinu. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að skipta um röð. Væri ekki betra að vera fjórði í röð sem gekk heldur en að vera annar í röð sem gekk ekki? Á endanum ákvað ég að vera um kyrrt. Afar kyrrt.

Um síðir höfðu öll eyðublöð verið fyllt út og litlu stúlkunni var ekkert að vanbúnaði að taka flugið.

Portúgalska parið var næst. Innritun þeirra gekk að mörgu leyti hraðar. Þau voru að vísu á báðum áttum varðandi það hversu margar töskur þau ættu að tékka inn og hversu margar töskur þau ættu að taka með í handfarangri. Eftir að hafa fengið verðskránna útskýrða í talsvert löngu máli ákváðu þau að tékka inn þrjár töskur en taka eina með í handfarangri. Jafnframt því ákváðu þau að skilja úlpurnar sínar eftir á kerru fyrir framan mig.

,,Afsakið … ¡Afsakið! … AFSAKIÐ … ¡AFSAKIÐ!“ sagði ég. ,,Þið gleymduð úlpunum ykkar.“

Eftir stutta röð en langa bið var loksins komið að mér.

,,Til Madrídar,“ sagði ég.

,,Klukkan hvað?“ spurði konan við innritunarborðið.

,,Sjö mínus korter,“ svaraði ég.

,,Það gerir átján fjörutíu og fimm.“

,,Einmitt.“

Konan hófst handa við að rita mig inn.

,,Það er víst kalt í Madríd,“ sagði hún eftir að hún hafði prentað út brottfararspjaldið mitt en áður en hún prentaði út límmiðann fyrir töskuna mína. ,,Mjög kalt.“

,,Það er víst,“ svaraði ég. ,,Ég er þó frá Íslandi og kalla ekki allt ömmu mína í þeim efnum — no llamo todo mi abuela.“

,,Það er víst,“ sagði hún, benti á vegabréfið mitt og hló. ,,Fyrir þig er því aldrei kalt hér um slóðir.“

,,Allt er nú afstætt,“ svaraði ég spekingslega. ,,Það er nú frekar kalt hér og nú miðað við stað og stund.“

,,Mér er allavegana skítkalt,“ sagði hún. ,,Mér er svo kalt að ég er í tvennum buxum. ¡Sjáðu bara!“

Því næst skellti hún fætinum upp á farangursbandið og dró upp buxnaskálmina. Viti menn. Haldiði að hún hafi ekki verið í þykkum sokkabuxum innanundir buxnadragtinni.

,,Jahá,“ sagði ég.

,,¡Jahá!“ sagði hún og hélt innrituninni áfram.

Hún rétti mér því næst brottfararspjaldið, við kvöddumst og ég hélt í átt að vopnaleitinni.

Er stysta röðin ávallt best?

Ég get nú ekki dregið afdráttarlausa ályktun af reynslu dagsins. Það er hins vegar næsta víst að stysta röðin var í þetta sinn nokkuð góð — jafnvel þótt hún hefði gengið hægar en aðrar raðir. Hefði ég ekki valið stystu röðina þá hefði ég ekki getað sagt söguna af konunni við innritunarborðið sem sýndi mér að hún var í tvennum buxum.

Comments are closed.