Hjólaöryggi
Að vanda brunaði ég á hjólinu niður Carrer del Torrent de les Flors í morgun á leið minni í vinnuna. Ég naut þess að láta ferskan morgun andvarann leika um hárið. Það var eitthvað dásamlega óvenjulega ferskt við andvarann. Eitthvað mjög undarlegt. Eitthvað grunsamlega undarlegt. Það var eitthvað eins og ekki átti að vera.
Eftir nokkra sekúnda umhugsun rann það upp fyrir mér að ég hafði gleymt hjólahjálminum heima. Í fyrsta sinn síðan ég byrjaði að hjóla hér í Barcelona gleymdi ég að setja á mig hjálm. Eftir uppgötvunina fór um mig ónotatilfinning. Það greip mig óöryggistilfinning. Tilfinningin var svipuð og að vera óspenntur í bíl. Einstaklega óþægileg tilfinning.
Nú voru einungis tveir kostir í stöðunni. Ná í hjálminn eða ná ekki í hjálminn. Letin var sterkari en óöryggistilfinningin. Ég nennti ekki að snúa við og ná í hjálminn. Ég ákvað þess í stað að hjóla bara varlega.
Ég fór varlega í að fara yfir á rauðu ljósi á leiðinni niður Passeig de Sant Joan. Ég ákvað að þjófstarta ekki á ljósunum við Carrer d’Aragó (sem kostaði það að ég náði ekki græna ljósinu á Carrer del Consell de Cent). Ég ákvað að hafa hendur á stýri þegar ég hjólaði í gegnum Parc de la Ciutadella. Ég sleppti síðan uppáhalds ,,stöntinu“ mínu — að fara handfrjálst í níutíu gráðu beygjuna við enda garðsins.
Tiltölulega seint og um síðir mætti ég síðan heilu og höldnu í vinnuna. Þegar litið er til baka þá held ég að ég hafi ekki farið í vinnuna af eins miklu öryggi í langan tíma. Þrátt fyrir (les: vegna þess) að vera ekki með hjálm á höfði.
Þessi hjólaferð vakti mig til umhugsunar um spurninguna hvort vegi hærra: raunverulegt öryggi hjólreiðahjálma eða falskt öryggi hjálmanna. Ég er hins vegar ekkert að spá í að gera neinar verklegar tilraunir til þess að varpa ljósi á svarið við spurningunni. Ég held ég reyni þess í stað að sameina það að vera með hjálm og hjóla varlega.