Klukkan fimm, eftir stuttan
Klukkan fimm, eftir stuttan svefn, fór ég á fætur til að klára að pakka niður. Ég komst fljótlega að því að ég hafði ekki pláss fyrir allt sem ég ætlaði að taka með mér. Ég stafladi því upp þeim hlutum sem ekki komust fyrir og bað pabba um að senda þá. Brátt var kominn tími til að leggja af stað. Suttu seinna tókst mér að klára að pakka og kveðja.
Ferðin til Keflavíkur gekk bara vel. Þó að leyfileg hámarksþyngd farangurs sé 20 kíló þá gerði afgreiðslumaðurinn enga athugasemd við að farangurinn minn vó 28,7 kíló. Hann hefur líklega ekki grunað að ég væri með tíu kíló af bókum í handfarangri. Ég hafði skamman tíma til að athafna mig á flugvellinum. Eyddi honum öllum í biðröð í bankanum. Ég taldi vissara að eiga hollensk gyllini því samkvæmt ferðahandbók eru Hollendingar ekki eins miklir kreditkortanotendur og Frakkar (ég á bágt með að ímynda mér að Frakkar séu mjög kortaglaðir). Það var reglulega skrýtin tilfinning að handleika seðla aftur eftir 2ja ára hlé.
Flugferðin gekk áfallalaust fyrir sig og ég náði smá blundi. Þegar ég var búinn að ná í töskurnar mínar tók við fyrsta vandamálið. Það var að finna hótelið. Þetta var auðleyst mál. Til að komast á IBIS hótelið var best að taka ókeypis IBIS hótelskutluna. Ég komst því vandræðalaust á hótelið. Þetta leit út fyrir að vera dæmigert flugvallarhótel (ég veit að vísu ekki hvernig dæmigerð flugvallarhótel líta út en ég get ímyndað mér að þau líti út eins og þetta hótel). Restinni af deginum eyddi ég í að leggja mig, lesa og horfa á sjónvarp (ég fór á eins konar fjarstýringarfyllerí, því eftir að hafa búið við einungis eina stöð á íslandi þá var svaka sport að komast í tæri við 20 stöðvar og fjarstýringu).