Þessi dagur er tilvalinn
Þessi dagur er tilvalinn til að lesa og horfa á sjónvarp. Enda var það nákvæmlega það sem ég gerði framan af degi. Eftir hádegið beið mín afar spennandi verkefni. Það var að pakka tíu kílóum af bókum og einum litlum bakpoka ofan í ferðatösku og stóran bakpoka. Þess má geta ad bæði ferðataskan og bakpokinn voru full áður en verkið hófst. En það sannaðist að það er full þörf á stigbreytingunni fullur/fyllri/fyllstur, því að mér tókst, með því að umraða stökum mengjanna ferðataska og bakpoki að búa til pláss fyrir tíu kíló af bókum í ferðatöskunni og pláss fyrir litla bakpokann í stóra bakpokanum.
Um hálfsjöleytið ákvað ég að fá mér gamlárssteikina á franska veitingastaðnum á hótelinu. Ég verð að viðurkenna að það var svolítið einmanalegt að biðja um borð fyrir einn. Þar sem dagurinn hafði að talsverðu leyti snúist um fyllerí (þ.e. fyllerí á töskum), þá ákvað ég að fá mér fyllta kjúklingabringu og rauðvínsglas. Á meðan ég beið eftir matnum dundaði ég mér við að læra hollensku með því að lesa samhliða enska og hollenska tilkynningu um að á þessum veitingastað væri bæði leyft að reykja og að reykja ekki, og að staðnum væri skipt í tvennt eftir því hvorn kostinn fólk tæki. Þegar maturinn kom sá ég að þetta var einn af þessum artí stöðum, þar sem rétturinn lítur út eins listaverk og bráðnar í munninum þegar þangað kemur. Það sem mér hefur alltaf fundist galli á slíkum stöðum er hversu naumt er skammtað. Þetta er reyndar talsvert vandamál hjá þessum stöðum því að mikill matur lítur sjaldnast vel út. Á þessum stað höfðu kokkarnir kokkað fram lausn á þessu vandamáli. Borinn var fram einn flottur diskur með kjúklingnum, grænmeti og kartöflum. Auk þess var borin fram full skál af kartöflum ef ske kynni að ég hefði farið út að borða í þeim tilgangi að verða saddur. Maturinn bragðaðist afar vel og kartöflurnar einnig.
Eftir matinnn var komið að því að ákveða hvað gera skyldi um áramótin. Þar sem hótelið var staðsett við Schiphol og ég ekki kunnugur í bænum, þá ákvað ég að skella mér ekki í bæinn. Þá hafði ég um nokkra kosti að velja. ég gat sofið, lesið eða horft á sjónvarpið. Mér fannst ekki koma til greina að vera sofandi svo að ég ákvað að horfa á sjónvarpið. Seinna um kvöldið fór ég að brjóta heilann hvort væri nú skemmtilegra að hafa verið að lesa eða horfa á sjónvarp um aldamót. Út frá þessum heilabrotum sofnaði ég. Þar með var málið leyst. Um aldamótin seinustu var ég svaf ég.