Ég og þýskur kunningi ?>

Ég og þýskur kunningi

Ég og þýskur kunningi minn veltum því fyrir okkur í dag hvort það væri skynsamleg aðferð hjá mér að læra hollensku með því að lesa stærðfræðitexta. Við komumst að þeirri niðurstöðu að líklega yrði málfar mitt frábrugðið þeirra sem hafa lært málið með hjálp þar til gerðra kennslubóka. Þegar aðrir segja: "Ik wil graag koffie hebben" þá segi ég: "Definieer X door: X de klasse van al ik willen zijn. Koffie in X zijn".

Kristján Rúnar Kristjánsson hélt því fram í gær í stórskemmtilegri dagbók sinni að ég væri ótrúlega fyndinn. Eftir að hafa lesið þetta fór ég að rannsaka eigin hug til þess að athuga hvort þetta gæti verið rétt hjá honum. Gæti leynst einhvers staðar í mínu orði eða athæfi eitthvað sem væri öðrum skemmtan? Eftir að hafa hugleitt þetta um stund ályktaði ég að það gæti verið að ég væri ekki eins leiðinlegur og ég hafði haldið. Þ.e. ég væri trúlega fyndinn. En leiðir þetta ekki til mótsagnar?

Skildu eftir svar