Það getur verið erfitt
Það getur verið erfitt að vera eini nemandinn í kennslustundum. Það krefst þess að nemandinn sé ávallt vel lesinn og alltaf með fulla einbeitingu í tímum. Það bætir svo sjaldnast úr skák að kennarinn tali stundum lágt, óskýrt og óljóst.
Ofangreind lýsing passar vel við inngangskúrsinn að rökfræði sem ég er að taka. Það besta við þá tíma er hversu stutt þeir vara. Ég hitti kennarann einu sinni í viku. Dæmigerður tími felst í því að við ræðum síðustu heimadæmaskil mín og kennarinn spyr mig nokkurra spurninga tengdar þeim. Ég á oftast í talsverðum vandræðum með að svara þessum spurningum. Ekki það að ég kunni ekki nægjanlega góð skil á efninu heldur á ég afar erfitt með að átta mig á að hverju hann er að spyrja. Þegar ég hef hins vegar fengið það á hreint um hvað hann er að spyrja, þá veit ég oftast svarið.