Eitt af því allra
Eitt af því allra skemmtilegasta við útlönd eru útlendingar. Það er gaman að lifa í alþjóðlegu samfélagi og kynnast fólki frá fjarlægum löndum og framandi menningarheimum. Kunningi minn, nígerískur Bandaríkjamaður sagði mér eftirfarandi sögu.
Hann var eitt sinn í heimsókn í gamla heimalandi sínu Nígeríu. Hann hugðist nota fríið til að slappa af í gamla heimabæ sínum. Það var hins vegar nokkuð sem truflaði þá slökun. Maðurinn í næsta húsi hafði þann sið að spila háværa tónlist alla daga og langt fram á nætur. Kunninginn ákvað að líta í heimsókn til mannsins og kvarta undan ólátunum. Það bar engan árangur, maðurinn skellti skollaeyrum við öllum kvörtunum. Nokkrum dögum síðar var kunninginn í heimsókn hjá bæjarstjóranum (þess má geta að fjölskylda kunningjans nýtur mikillar virðingar í bænum). Þar barst í tal ónæðið sem kunningi minn varð fyrir. Daginn eftir var rafmagnið tekið af hluta bæjarins. M.a. af húsi hávaðaseggsins. Eftir að hafa horft upp á rafmagnsleysi nágranna sinna í tvo daga ákvað kunninginn að skella sér í heimsókn til bæjarstjórans og reyna að fá hann til að setja rafmagnið á aftur. Bæjarstjórinn var tregur til í fyrstu vegna þess að það þurfti að kenna þessu fólki að bera virðingu fyrir sér æðri mönnum. Eftir mikið þref tókst þó kunningjanum að sannfæra bæjarstjórann um að réttast væri að hleypa rafmagninu á aftur.
Þess ber að geta að Nígería er í örri þróun á leið til nútímavæðingar og munu sögur sem þessi brátt heyra sögunni til. Þess má einnig geta að í höfuðborginni
Lagos
(þar sem ég hélt að væru bara tígrisdýr, fílar og stríðsherrar) eru allt að 50 hæða skýjakljúfar og þróað samfélag. Nýlega voru boðin upp þar í landi leyfi til rekstrar farsímakerfa og komu erlend símafyrirtæki með fjarmagn inn í landið í tengslum við það. Talið er að í Nígeríu séu 50 milljón manns sem hafi efni á að kaupa sér GSM síma og nota hann.