Spænsk biðraðafræði
Á undanförnum mánuðum hef ég eytt all nokkrum klukkutímum í hinum og þessum biðröðum á Spáni. Þó að biðraðirnar séu jafn misjafnar eins og þær eru margar þá er eitt forvintilegt mynstur sem er sameiginleg með mörgum biðraðanna.
Mynstrið lýsir sér þannig að tvær biðraðir myndast fyrir utan dyr hálftíma til klukkutíma áður en dyrnar opnast. Fyrir utan dyrnar eru engar leiðbeiningar sem gefa til kynna að tvær biðraðir skulu myndast. Því síður eru nokkrar leiðbeiningar sem gefa til kynna hver sé munurinn á biðröðunum tveimur. Hins vegar virðist fólkið einfaldlega vita hvar það eigi að standa. Það veit hvor röðin er fyrir Evrópubúa og hvor er fyrir hina. Það veit hvor röðin er fyrir þá sem þurfa að sækja gögn og hvor röðin er fyrir þá sem þurfa að sækja um gögn. Það er eins og ekkert sé augljósara.
Ég skrapp í morgun í til kínverska ræðismannsins hér í Barcelona til þess að sækja um vegabréfsáritun til Kína. Þegar ég mætti á staðinn hálftíma fyrir opnun höfðu þegar myndast tvær biðraðir fyrir utan dyrnar. Ég gekk að biðröðinni sem var nær mér og spurði manninn sem var aftast í röðinni hvort þetta væri röðin fyrir kínversku ræðismannsskrifstofuna. Hann játti því en bætti við að hann væri — eftir því sem hann vissi best — í biðröðinni til þess að sækja vegabréfsáritanir. Ef ég vildi sækja um vegabréfsáritun ætti ég næstum örugglega að fara í hina biðröðina.
Ég treysti manninum, tók mér stöðu í hinni biðröðinni og flétti í gegnum Metro. Klukkan hálf tíu opnuðust dyrnar. Vörður kom út og hengdi upp tvenn skilti — hvort við sína biðröðina. Það kom á daginn að maðurinn sem ég talaði við hafði haft rétt fyrir sér. Á skiltinu við mína biðröð stóð að þessi biðröð væri fyrir þá sem vildu sækja um vegabréfsáritun. Á skiltinu við hina biðröðina stóð að sú biðröð væri fyrir þá sem vildu sækja vegabréfsáritanir.