Blautur í forboðinni borg
Vaknaði tiltölulega snemma í morgun eftir afar langþráðan svefn. Úti var hellirigning. Eftir morgunmatinn hélt ég til Forboðnu Borgarinnar ásamt fimm öðrum ráðstefnugestum. Hópurinn skiptist þó strax í tvo þriggja manna hópa vegna þess að leigubílstjórarnir óku okkur hvor að sínum inngangi. Við röltum því þrjú saman um borgina forboðnu í grenjandi rigningunni — vopnuð regnhlífum og myndavélum. Þrátt fyrir að göngutúrinn hafi verið afar blautur þá var hann afar ánægjulegur.
Þegar við höfðum fengið nóg af forboðnum borgum þá skelltum við okkur til baka á hótelið og hengdum skó og sokka til þerris. Þar sem að farangurinn minn hafði ekki enn komið í leitirnar þá gat ég ekki skellt mér í þurrar buxur. Þess í stað þurrkaði ég skálmarnar með hárþurrku og skellti mér berfættur í inniskóna sem fylgdu herberginu.
Við fengið okkur síðbúinn hádegismat — eða réttara sagt snemmbúinn kvöldmat — á hótelinu. Ég þurfti því ekki að fara í langa göngu á efnislitlum inniskónum. Eftir matinn hringdi ég í Air China og fékk að vita að farangurinn minn væri kominn í leitirnar og kominn til Pekíng. Hann er væntanlegur um miðnætti í kvöld. Húrra!