Það gat nú verið
Það gat nú verið að þrettánda vika ársins myndi byrja með óheppni. Ég tapaði heilum klukkutíma í nótt. Fór að sofa rétt eftir miðnætti í gærkveldi. Þegar ég vaknaði átta tímum seinna var klukkan nokkrar mínútur yfir níu. Í nótt var nefnilega skipt yfir í sumartíma. Það þýðir að einni sekúndu eftir að klukkan var 1:59:59 varð hún 3:00:00. Mér skilst að ég fái til baka í október þennan klukkutíma sem ég tapaði (eða allavegana einn sambærilegan). Annars er þetta ekki fyrsti klukkutíminn sem ég tapa því að ég er fæddur að vetri til í landi þar sem er alltaf sumar (a.m.k. alltaf sumartími). Einnig tapaði ég klukkutíma við það eitt að flytja til Hollands.