Ég fékk mér langa
Ég fékk mér langa sunnudagsgöngu í dag. Þegar ég hélt af stað var ætlunin að kíkja rétt aðeins á ólympíuhverfið í Amsterdam. Eftir að hafa gengið í nokkurn tíma áttaði ég mig á því að ég var ekki með borgarkortið nógu vel í kollinum og vissi því ekki í hvaða átt ég ætti að fara til að finna hverfið. Þar sem ég vissi að ég væri í nágrenni árinnar Amstel ákvað ég að ganga meðfram henni. Nánar tiltekið ákvað ég að ganga meðfram ánni þar til ég fyndi brú, fara yfir brúnna og ganga niður með ánni á hinum bakkanum. Ég gekk því af stað upp eftir ánni og fylgdist með ræðurum sem kepptust við að róa upp eftir ánni. Leiðin lá í gegnum útivistarsvæðið Amstelpark. Eftir tvo klukkutíma kom ég að brú. Þegar þangað var komið var ég orðinn talsvert svangur. Ég ákvað því að ganaga áfram upp eftir ánni og athuga hvort ég fyndi ekki sveitakrá í útjarðri Amstelpark. Eftir klukkutíma göngu var ég kominn til Amstelveen, eins af úthverfum Amsterdam. Mér hafði ekki tekist að finna nokkra krá eða veitingastað sem var opinn á Pálmasunnudag. Eftir að hafa gengið um stund um hverfið fann ég veitingastað sem hafði ekki trúarlegar forsendur til að hafa lokað á þessum helga degi kristinna. Ég keypti mér kjúkling með núðlum á þessum kínverska "take-away" stað. Ég fann mér bekk í almenningsgarði í nágrenninu og fékk mér að borða. Eftir máltíðina rölti ég um hverfið í leit að lestarstöð. Ég fann eina slíka eftir stutta leit. Í lestinni á leiðinni heim hugsaði ég hversu gott það yrði að komast heim til að hvíla lúin bein.