Ég nennti ekki að
Ég nennti ekki að elda og skellti mér þess vegna á ítalskan (les: tyrkneskan) flatbökustað í nágrenninu. Þegar ég var búinn að panta matinn hugðist ég að snúa mér að lestri bókarinnar sem ég hafði tekið með mér til að stytta mér biðina eftir matnum. Það var hins vegar eitthvað sem truflaði mig, en ég vissi ekki hvað það var. Fljótlega áttaði ég mig á því að skvaldrið á veitingastaðnum var ekkert venjulegt hollenskt skvaldur. Mér fannst ég greina íslenskt skvaldur í bland við það hollenska. Þó ég reyndi að sperra eyrun, þá gat ég ekki greint nein orðaskil, en var samt viss um að ég heyrði íslenskt hljómfall. Eftir skamma stund viðurkenndi ég fyrir sjálfum mér að ég væri líklega búinn að tapa glórunni og farinn að heyra ofheyrnir. Ég leiddi því skvaldrið hjá mér og sneri mér að lestrinum. Seinna, þegar ég var í þann mund að byrja á að háma í mig pítsuna, heyrði ég nákvæmlega það sem ég hafði áður verið að hlusta eftir. Ég heyrði greinilega orðið "nákvæmlega". Ég sperrti því eyrun á ný. Í þetta sinn heyrði ég nógu greinileg íslenk orð til að sannfæra mig um það að ég væri ekki búinn að tapa glórunni (a.m.k. ekki ennþá), heldur að það væri í raun og veru töluð íslenska á þessum stað (þessu ber þó að taka með þeim fyrirvara að sé ég búinn að tapa glórunni þá er ég líklega ekki sjálfur fær um það að ákvarða hvort ég sé búinn að tapa henni eður ei! (þessu ber þó að taka með þeim fyrirvara að sé ég búinn að tapa glórunni þá er ég líklega ekki sjálfur fær um það að ákvarða hvort glórulaus maður sé meðvitaður um eigið glórutap! ( … ))). Allavegana gat ég notið máltíðarinnar án þess að hafa áhyggjur af eigin glórutapi.