Ég skrapp í dag
Ég skrapp í dag á kaffihús með bandarískum málvísindanema. Hann er að gera rannsókn á notkun tilvísunarfornanfna í nokkrum tungumálum. Hann hafði átt í vandræðum með skilja sig (þ.e.a.s. hann átti í vandræðum með að skilja íslenska tilvísunarfornafnið sig (ég veit ekki neitt um hans eigin skilning á sjálfum sér enda kemur það mér ekkert við)). Hann vildi því spyrja innfæddan Íslending nokkurra spurninga um sig (þ.e.a.s. hann vildi spyrja um tilvísunafornanfnið sig (hafi hann einhverjar spurningar um sjálfan sig er ég ekki viss um að innfæddur Íslendingur hefði neitt fleiri svör við þeim en hver annar)). Hann lagði því fyrir mig nokkrar setningar og spurði mig hvernig bæri að skilja þær. Það er ný reynsla fyrir mig að reyna að skilja setningafræðilega eiginleika setninga. Hingað til hef ég fremur einbeitt mér að því að misskilja þá einginleika. Ég er því satt best að segja ekki viss að ég hafi getað gert mig nógu skiljanlegan til að hann gæti skilið mig (þ.e. sig). Er annars hægt að ákvarða ótvírætt hvor einn geti verið viss um að annar skilji sig?
Mig langar að reyna að komast að því hversu mikla vitleysu ég sagði manninum. Ég legg því eftirfarandi verkefni fyrir þig lesandi góður. Hvernig er hægt að skilja eftirfarandi setningar? Þ.e.a.s. til hverra (ef einhverra) getur sig/hann vísað í eftirfarandi setningum?
Jón heldur að Gunna elski sig.
Jón heldur að Gunna elski hann.