Hvenær er best að finna hluti? ?>

Hvenær er best að finna hluti?

Fram til dagsins í dag hef ég verið á þeirri skoðun að eftir að hlutir týnast þá er jafnan nytsamlegt að finna þá aftur. Það gerðist í sjálfu sér ekkert í dag sem breytti þessari skoðun minni. Hins vegar komst ég að því í dag að til eru nytsamlegri atburðir en að finna hluti eftir að þeir týnast. Til dæmis er mun nytsamlegra að finna hluti áður en þeir týnast. Með því að finna hluti áður en þeir týnast er hægt að nota í eitthvað annað þann tíma sem ella færi í að leita að týnda hlutnum.

Í dag var síðasti vinnudagur minn fyrir tíu daga sumarfrí. Að því tilefni ákvað ég að taka til á skrifborðinu mínu áður en ég fór heim úr vinnunni. Tiltektin fólst aðallega í því að safna saman í einn bunka hinum og þessum blaðastöflum sem eiga það til að hrúgast upp á víð og dreif um skrifborðið og næsta nágrenni þess. Sameinaða bunkann setti ég síðan ofan í skúffu með það fyrir augum að fara í gegnum hann og sortera þegar ég kem til baka úr fríinu — eða þegar skúffan er orðin full.

Eftir að hafa hreinsað blaðastaflana af borðinu kom ég auga á möppu sem hafði verið undir einum blaðabunkanum. Ég ákvað að láta möppuna fylgja blöðunum ofan í skúffuna. Áður en ég lagði möppuna frá mér þá datt mér í hug að forvitnast um það hvað væri í möppunni. Ég opnaði hana og sá að í henni voru ýmis gögn sem ég hafði safnað saman þegar ég var að vinna í skattaskýrslunni minni. Einnig fann ég í möppunni hlut sem ég hafði ekki átt von á að finna í vinnunni. Ég fann vegabréfið mitt.

Það varð mér til mikillar ánægju að finna vegabréfið mitt. Ekki þó vegna þess að það hafði verið týnt heldur þvert á móti vegna þess að það hafði ekki verið týnt. Ekki ennþá. Mér tókst sem sagt að finna vegabréfið áður en ég týndi því. Þar með sparaði ég mér heilmikinn tíma sem hefði ella farið í að leita að vegabréfinu í fyrramálið þegar ég fer að pakka niður nokkrum sokkum til þess að taka með í tíu daga heimsókn til Íslands.

Skildu eftir svar