25a Mitja Marató Sant Cugat
Fyrir um það bil ári síðan gerði ég merkilega tilraun sem — þvert á mínar væntingar — sýndi fram á að það borgar sig að þjálfa líkamann áður en reynt er að setja persónuleg met í langhlaupum (sjá nánar hér). Ég mætti því í morgun í Sant Cugat hálf-maraþonið með rúmlega mánaðar langt þjálfunar tímabil á bakinu. Markmiðið var hið sama og í fyrra — bæta minn besta tíma (sem var þá einnig minn versti tími).
Það var hins vegar einn óvissuþáttur sem gæti sett strik í reikninginn. Ég var ekki viss hversu vel ég hafði jafnað mig á kvefinu sem ég fékk um miðbik síðustu viku. Ég var þó viss um að ég næði að klára hlaupið þar sem að ég hafði náð það góðum bata að ég gat andað með nefinu (það að geta andað með nefinu er nokkurn veginn nauðsynlegt skilyrði fyrir því að ná að klára langhlaup … en þó hugsanlega ekki nægjanlegt).
Í ljósi óvissunnar setti ég mér því nokkur markmið. Aðal markmiðið var að klára hlaupið á 1:55:30. Ef það næðist ekki ætlaði ég allavegna að bæta minn besta tíma — 1:58:11. Ef það næðist ekki þá ætlaði ég allavegana að klára á innan við tveimur tímum. Ef það næðist ekki þá ætlaði ég að verða á undan trúðnum sem hlóp fram úr mér á kílómetra 19 í fyrra (sjá nánar). Ef það næðist ekki þá ætlaði ég að bæta tíma minn frá því fyrir ári — 2:02:28. Ef það næðist ekki þá ætlaði ég að reyna að fella trúðinn um leið og hann færi fram úr mér (ég hef varla getað sofið í heilt ár vegna minningarinnar um það þegar trúðurinn geystist fram úr mér).
Hlaupið fór vel af stað. Ég fékk strax á tilfinninguna að ég myndi að minnsta kosti geta bætt tíma minn frá því fyrir ári. Ég hljóp fyrstu fimm kílómetrana á 28:09 (25:53 í fyrra). Næstu fimm hlóp ég á 27:03 (26:06 í fyrra). Eftir tíu kílómetrana tók við stóra spurningin: Næði ég að halda dampi eða spryngi ég á limminu líkt og í fyrra?
Brátt kom ég að brekkunni sem gerði útaf við mig í fyrra. Í ár virtist hún ekki eins brött og í fyrra. Eða var það ég sem var brattari heldur en í fyrra? Hvernig sem í því lá þá náði ég að viðhalda ferðinni. Brekkan tók enda og ég var enn ósprunginn.
Eftir að hafa hlaupið um 14 kílómetra kom ég auga á gamlan kunningja — trúðinn. Við mættumst á hlaupunum. Í stað þess að fyllast ótta, reiði og minnimáttarkennd — eins og ég hef gert í hvert sinn sem ég hef komið auga á trúð undanfarið ár — þá bara brosti ég til hans. Ég vissi nefnilega að hann átti eftir hlaupa þriggja kílómetra lykkju áður en hann næði mér. Þar að auki var ég í góðum gír svo að það yrði eitthvað mikið að gerast ef hann ætti að hlaupa mig uppi.
Það fór að lokum svo að ég hljóp kílómetrana tíu til fimmtán á 28:02 (29:24 í fyrra). Þó ég væri á þessum tímapunkti á verri millitíma en í fyrra þá var stóri munurinn sá að ég var hvergi nærri því að gefast upp — ólíkt því sem ég hafði verið árið áður. Það fór svo að ég náði næstum því að halda dampi og hljóp næstu fimm kílómetra á 28:51 (34:08 í fyrra). Ég hafði jafnvel nóg inni til þess að skpta um gír og klára síðasta kílómetrann á 5:40 (tæplega sjö í fyrra).
Ég hljóp yfir endalínuna á betri tíma en í fyrra — á undan trúðnum — á innan við tveimur tímum — á mínum besta tíma — 1:57:49. Ég get því ekki annað en verið sáttur við hlaupið. Það sem er hins vegar mikilvægast við árangur dagsins er að ég er laus við allan ótta, reiði og minnimáttarkenndar ganvart fólki sem er í skræpóttum fötum, hvítt í andliti og með stórt rautt nef.
One thought on “25a Mitja Marató Sant Cugat”
Hey Börkur,
just wanted to remind you that we still have a bet
running about wether Icelands joins the EU!! :-))
(i think the premise was „in 10 years time“, that would be before 2012…). What was the wager?
Anyway hope you are fine and that you and your family did not loose any money in this crises!
sorry that i lost your emailadress. Would be nice
to hear from you again!
ciao,
Steffen
p.s.: Are you still interested in graffiti? just saw some of your pics…
Because that`s something i became interested in quite recently! I highly recommend to you the brilliant documentary „Style Wars“ (http://www.stylewars.com/).
And a good film about the European style is
„Writers. 20 ans de graffiti à Paris“ by Marc-Aurèle Vecchione.