Það sem af er
Það sem af er þessu misseri hef ég verið að taka tvö námskeið. Vinnuálagið í þessum tveimur kúrsum er það mikið að ég eyði næstum öllum mínum tíma í að læra fyrir þá. Ég vildi reyna að létta aðeins á álaginu. Þess vegna gerði ég í dag hið eina rökrétta í stöðunni. Ég bætti við mig þriðja kúrsinum.
Einingakerfi UvA er að vissu leyti svipað og annars staðar. Vinnuálag í námskeiði fer eftir einingafjölda sem fæst fyrir það (eða einingafjöldi ræðst af vinnuálagi). Það sem er hins vegar talsvert undarlegt er að vinnuálag virðist vera í öfugu hlutalli við einingafjölda. Því færri einingar sem fást fyrir námskeið, því meira vinnuálag. Hvor kúrs sem ég hef verið að taka á þessu misseri er 3,5 einingar. Samanlagt eru þeir því 7 einingar eða hálft nám. Einingalega séð vantaði mig því 7 einingar til að geta talist í 100% lánshæfu námi.
Fram til dagsins í dag hafði ég hugsað mér að byrja á lokaverkefninu mínu. Í það ætlaði ég að leggja vinnu sem svaraði 7 einingum. Hins vegar er einingafjöldi við lokaverkefni í réttu hlutfalli við vinnu. Það var því ljóst að ég næði ekki að vinna nógu mikið í lokaverkefninu til að teljast í fullu námi.
Það var því bara eitt til í stöðunni. Ég varð að skrá mig í einn 7 eininga kúrs til viðbótar. Kúrsinn sem varð fyrir valinu var Lisp for Artificial Intelligence Programming. Þetta er kúrs sem kennir undirstöðuatriði forritunarmálsins lisp. Vinnuálag ætti ekki að breytast mikið því að ef ég þekki 7 eininga kúrsa rétt þá eru þeir létt verk og löðurmannlegt. Að vísu verður talsvert að gera í byrjun því að ég þarf að vinna upp þær fjórar vikur sem liðnar eru síðan kúrsinn byrjaði. Það ætti að nást fyrir helgi.