Cursa Bombers 2009
Á undanförnum árum hef ég verið að rannsaka hvernig skilyrði henta mér best til þess að ná árangri í langhlaupum. Niðurstöður rannsókna minna eru eftirfarandi. 1) Þjálfun er betri en þjálfunarleysi. 2) Mér finnst rigningin góð. 3) Auðveldara er að ná metnaðarlausum markmiðum heldur en metnaðarfullum markmiðum. Það er næsta víst að þessar niðurstöður muni valda straumhvörfum í íþróttaheiminum.
Ég tók í dag þátt í hinu árlega Cursa Bombers hlaupi. Með það fyrir augum að hámarka árangur minn þá hagaði ég undirbúningi mínum á eftirfarandi hátt.
Þjálfun: Eftir að hafa ekki hlaupið síðan í nóvember þá tók ég mig til fyrir þremur vikum og byrjaði að hlaupa þrisvar í viku. Ég hljóp í tvær vikur og hvíldi í þá þriðju. Ég er því ekki gersamlega óþjálfaður fyrir hlaupið.
Veður: Undanfarna viku hef ég dansað regndans á hverju kvöldi til þess að auka líkur á rigningu. Dansinn gekk vel í upphafi vikunnar og það rigndi duglega. Undir lok vikunnar fór ég hins vegar út af sporinu og sólin hefur skinið skært nú um helgina. Veðrið var því einungis eins og næst best verður á kosið.
Markmið: Þó svo að metnaðarlaus markmið séu vissulega vænlegri til árangurs (það er að segja árangurs umfram markmið) þá er hins vegar næsta víst að það er skemmtilegra að glíma við metnaðarfull markmið heldur en metnaðarlaus markmið. Ég ákvað því að setja mér markmið í metnaðarfyllri kantinum. Ég ákvað að hlaupa kílómetrana tíu á 45-48 mínútum.
Þegar kom að því að reikna út áætlaðan milltíma fyrir hvern kílómetra kom hins vegar babb í bátinn. Efri mörkin voru heldur strembin. Til þess að sjá til þess að ég hlypi samkvæmt áætlun þyrfti ég að sjá til þess að ég hlypi fyrsta kílómetrann á innan við 4:48. Fyrstu tvo á innan við 2 x 4:48 = 9:36. Fyrstu þrjá á innan við 3 x 4:48 = 14:24. O.s.frv.
Þar sem ég er ekkert sérstaklega sleipur í margföldun þá sá ég að þetta gengi ekki. Ég yrði að setja mér önnur og raunhæfari markmið. Ég ákvað því að hlaupa hlaupið á 45-47:30 mínútum. Það voru mun raunhæfari markmið enda er 4:45 sinnum taflan — eða réttara sagt (5:00 – 0:15) sinnum taflan — mun auðveldari en 4:48 sinnum taflan.
Mér var því ekkert að vanbúnaði. Upphitun gat hafist. Upphitunin fólst í því að skokka niður Passeig de Sant Joan — niður að Estació França. Ég skokkaði fyrstu metrana einn míns liðs. Smám saman bættust fleiri hlauparar í hópinn eftir því sem rásmarkið nálgaðist. Þegar komið var að Arc de Triomf var hópurinn orðinn heldur þéttur. Til allra átta mátti sjá hlaupara. Karla klædda í hvíta boli með áletruninni ,,Triomf és masculí''. Konur klæddar í rauða boli með áletruninni ,,Victòria és femení''.
Á slaginu tíu var hlaupið ræst. Ég fann mér þægilegan hlaupahraða og vonaði að hann væri nálægt því marki sem ég hafði sett mér. Svo reyndist ekki vera. Eftir hvern kílómetra reiknaði ég út hversu langt ég væri frá mínum efri mörkum:
- 4:59 – (5:00 – 0:15) = 0:14
- 9:51 – 2x(5:00 – 0:15) = 0:21
- 14:41 – 3x(5:00 – 0:15) = 0:26
- 19:39 – 4x(5:00 – 0:15) = 0:39
- 24:34 – 5x(5:00 – 0:15) = 0:49
Eftir að hafa hlaupið fimm kílómetra reiknaðist mér því til að ég væri 49 sekúndum yfir áætluðum efri mörkum. Ég þurfti því að gera eitthvað til þess að koma mér á áætlun. Ég varð að finna ráð til þess að ná að hlaupa hraðar.
Allt í einu fékk ég hugdettu. Ég ákvað að hætta að reikna út hversu langt ég var frá áætluninni. Ég ályktaði sem svo að allir þessir reikningar leiddu einungis til stóraukins súrefnisflæðis til heilans á kostnað fótanna — sem höfðu miklu meiri þörf fyrir súrefnið. Ég hætti því að reikna og einbeitti mér að því að hlaupa.
Planið gekk upp í byrjun. Ég hljóp næstu tvo kílómetra á sæmilegum hraða. Eftir á litið reyndist ég hlaupa þá báða á upphaflegum áætluðum efri mörkum — 4:48. Eftir að sjö kílómetrar voru að baki fór ég hins vegar að eiga erfitt með að halda dampi. Ég fann hvernig ég fór smám saman að hægja á ferðinni án þess að geta rönd við reist. Það eina sem ég gat gert var að berjast af öllum kröftum við að hægja ekki ferðina um of.
Þegar upp var staðið þá kom ég í mark á 49:14 mínútum. Þremur sekúndum frá mínum besta tíma. Alls ekki svo slæmt. Mér finnst hins vegar heldur skuggalegt að ég skuli hafa hlaupið þrjú síðustu 10km hlaup á milli 49:11 og 49:22. Getur verið að ég sé búinn að finna minn náttúrlega hlaupatakt? Mun ég einhvern tíman geta brotist í gegnum 49 mínútna múrinn?
Framhald síðar.