Ég hitti í dag
Ég hitti í dag makedónskan kunningja minn. Hann er að læra stjórnmálafræði. Hann er að fara að byrja á lokaverkefninu sínu bráðlega. Efnið sem hann tekur fyrir er í meira lagi áhugavert. Ef mér skildist rétt þá ætlar hann að ræða lögsögu evrópuþingsins og framkvæmdastjórnar evrópusambandsins út frá hefðbundinni skilgreiningu lýðræðis. Ég er afar spenntur að vita að hvaða niðurstöðum hann kemst. Hugtakið lýðræði hefur nefnilega verið mér afar hulgeikið undanfarna daga.
Ísland er talið vera lýðræðisríki. Það birtist meðal annars í því að þjóðin kýs sér fulltrúa sem kjósa fulltrúa sem ákveða hvað fólk skuli borga fyrir að horfa á í sjónvarpinu. Ef ég skil rétt þá er þetta er talið vera lýðræðislegt ferli vegna þess að fyrri kosningarnar eru hlutfallskosningar og þær seinni meirihlutakosningar. Einhverra hluta vegna finnst mér þetta vera afar klaufalegt lýðræði. Væri ekki einfaldara að leyfa lýðnum sjálfum að ráða hvað hann borgar fyrir að horfa á í sjónvarpinu? Það væri hægt að gera með því að leggja af ríkisstyrkt nauðungaráskriftar sjónvarp.
Kaup á sjónvarpsefni er einungis eitt dæmi af mörgum þar sem auðveldlega má auka lýðræði. Til dæmis mætti hugsa sér að í framtíðinni væri Reykvíkingum það í sjálfvald sett hvort þeir fjárfestu í fjarskiptafyrirtækjum eða ekki. Einnig væri ekki fráleitt að ætla að landsmenn fengju sjálfir að ráða því hvort þeir borðuðu íslenska eða hollenska papriku. Þess má geta að ég hef það eftir öruggum heimildum að hollensk paprika er holl og góð, jafnvel þótt hún sé ekki framleidd af íslenkum garðyrkjubónda. Á þessum nótum gæti ég haldið upptalningunni áfram í marga daga. En þar sem sú upptalning er næsta augljós þá er hún eftirlátin lesanda.
Íslendingar eiga það vissulega gott að lifa í lýðræðisríki. Hins vegar er margt sem betur mætti fara til þess að lýðurinn fengi að ráða öllu því sem hann á skilið að ráða.