Ég fór á fyrirlestur ?>

Ég fór á fyrirlestur

Ég fór á fyrirlestur í dag um Logic Programming. Fyrirlesarinn var afar athygliverður. Hann var meira en lítið utan við sig. Hann talaði eins og hann væri að tala upphátt við sjálfan sig. Öðru hvoru stoppaði hann í miðri setningu, hugsaði sig um og tautaði síðan eitthvað í hálfum hljóðum sem ég geri ráð fyrir að hafi verið lok setningarinnar. Einnig var glærumeðferð hans athygliverð. Eins og gengur og gerist þá hafði hann pappír á milli glæranna sinna til að forða þeim frá því að loða saman. Öðru hvoru gleymdi hann að fjarlægja pappírinn áður en hann skellti glærunni á myndvarpann. Glærurnar voru því ekkert sérlega glærar, né sýnilegar. Hann fékk þó alltaf ábendingu um þetta frá áheyrendunum þannig að efni glæranna sást fyrir rest. Þrátt fyrir þetta allt þá tókst fyrirlesaranum bara þokkalega að koma efninu frá sér. Ég gat allavegana staðið upp frá fyrirlestrinum og sagt að ég vissi nokkurn veginn um hvað hann var að tala.

Skildu eftir svar