Tagamanent ?>

Tagamanent

Lightpost in El Figaró

Ég skrapp í dag í fjallgöngu. Fyrir valinu var fjallið Tagamanent (1059m) í Montseny þjóðgarðinum. Þetta var í annað sinn sem ég reyni við þetta fjall. Í fyrra skiptið var ég aðeins of utan við mig á göngunni og gleymdi að beygja til vinstri þegar ég átti að gera það. Úr varð að ég villtist í kjölfarið og varð að sætta við mig við að fá mér stefnulausan göngutúr um láglendi Montseny hálf sannfærður um að ég væri á rangri leið — hálf sannfærður um að ég væri á réttri leið.

Ganga dagsins byrjaði á lestarstöðinni í El Figaró. Ég gekk í gegnum þorpið og þaðan meðfram Vallcàrquera ánni inn í Montseny þjóðgarðinn. Að þessu sinni hafði ég göngukortið í annarri og bókina með lýsingu á gönguleiðinni í hinni. Ég kíkti á kortið reglulega og las göngulýsinguna til þess að vera handviss um að ég væri á réttri leið.

Red flowers -- blue sky

Að þessu sinni gekk mér mun betur að finna rétta leið. Ég tók mér einungis einn stuttan auka útsýnistúr. Ég sá hins vegar ekki eftir honum því að ég því að ég náði einni afbragðsgóðri ljósmynd á útúrdúrnum.

Þegar ég villtist um þetta svæði á sínum tíma var ég fljótlega nokkuð viss um að ég væri ekki á réttri leið. Það sem fékk mig hins vegar til þess að efast um villur míns vega var að eftir rúman klukkutíma kom ég að krossi. Í göngulýsingunni sagði einmitt að eftir rúma klukkustund væri komið að krossi. Eftir að hafa gengið í rúman klukkutíma í dag kom ég ekki að krossi. Þess í stað stóð ég á kossgötum. Ég leit því á ný á göngulýsinguna. Viti menn. Að þessu sinni stóð þar að eftir rúman klukkutíma væri komið að krossgötum. Smá misskilningur hjá mínum manni á sínum tíma. Hafði lesið Cruz í stað Cruce.

Ruins on Tagamanent

Stuttu síðar kom ég að krossgötum á ný. Samkvæmt göngulýsingunni lá leiðin eftir veginum til hægri. Samkvæmt kortinu sýndist mér ég einnig getað valið göngustíg í gegnum skóginn. Með hliðsjón af fyrri reynslu minni í að villast á þessum slóðum var hverjum heilvita manni ljóst að það væri skynsamlegt að fylgja göngulýsingunni eftir veginum. Annað væri óðs manns æði og ávísun á það að villast á ný. Ég hélt því beint af augum eftir göngustígnum inn í skóginn.

Það gekk nú bara vel að þræða mig í gegnum skóginn. Stígurinn var vel varðaður og ég komst heilu og höldnu á top Tagamanent. Ég eyddi rúmum hálftíma á toppnum. Fékk mér nesti, skoðaði rústir og naut útsýnisins. Í fjarska sá ég glytta í Pyreneafjöllin. Þar voru hæstu tindar enn þaktir snjó.

Amanida Catalana

Eftir að hafa hvílt mig nóg á toppnum hélt ég af stað niður. Að þessu sinni hélt ég niður í eftir öðrum skógarstíg niður í þorpið Aiguafreda. Ég settist þar niður á veitingasað á aðaltorginu og fékk mér salat og bjór — áður en ég hélt til baka með lestinni til Barcelona eftir vel heppnaða fjallgöngu í sólinni.

www.flickr.com

borkur.net's Tagamanent photoset

Skildu eftir svar