Nú er ég kominn
Nú er ég kominn til baka í borgarmenninguna og get farið að skrifa í dagbókina á ný.
Nýtt vefsnið
Sumarið 2001 byrjaði ég á því að færa vefinn minn af HTML sniði yfir á almennara XML snið. Fyrir þá sem ekki vita þá er best að skýra aðeins muninn á HTML og XML. HTML snið notað til að lýsa útliti texta. XML er e.k. alhæfing HTML, þ.e.a.s. XML er almennt snið til að lýsa hvaða eiginleikum texta sem er . Markmiðið með þessari yfirfærslu var að fjarlægja allar útlitsupplýsingar út úr textaskránum yfir í sérstakar forsniðs skrár. Takmarkið var að efni vefjarins yrði geymt á XML sniði og væri sambland af texta og merkingarfræðilegum upplýsingum um textann. Til þess að skoða efni vefjarins þarf hins vegar að samkeyra XML skrárnar og forsniðsskrárnar til þess að fá út HTML skrár sem varfrar skilja og geta birt.
Ég fór aðeins hálfa leið sumarið 2001. Ég skipti talsverðu af útlitsupplýsingunum út fyrir merkingafræðilegar upplýsingar. Það varð hins vegar slatti af útlitsupplýsingum áfram í XML skránum. Ég er þessa dagana í miðjum klíðum við að endurnýja XML sniðið svo að ég komist nær því markmiði að færa allt útlit út úr XML skránum. Verkið stendur þannig að ég er búinn að umbreyta öllu nema dagbókinni fyrir 2001. Sá hluti vefjarins er því ekki aðgengilegur eins og er en hann mun koma inn smám saman.
Ég hef einnig breytt uppsetningu dagbókarinnar þannig að á aðalsíðunni birtast nýjustu dagbókarfærslur í öfugri tímaröð. Gömlum dagbókarfærslum er hinsvegar safnað saman í sér skrár. Hver skrá inniheldur einn mánuð og færslurnar birtast í réttri tímaröð.
INEX
Ég kom í dag heim frá INEX ráðstefnunni sem haldin var í Þýskalandi. Þar sem að efni ráðstefnunnar var nátengt doktorsverkefninu mínu þá naut ég mín afar vel þar. Ég lærði heilan helling og borðaði á mig gat. Ég nenni ekki að segja frá ráðstefnunni núna en minnist kannski á hana síðar.