19a Cursa CEC a Collserola
Ofan við Barcelona eru að öllu jöfnu hæðir. Í dag var þar fjall. Ég tók þátt í nítjánda fjallahlaupi Ferðafélags Katalóníu um Collserola fjallgarðinn.
Undirbúningurinn fyrir hlaupið var heldur skrykkjóttur og lengi vel tvísýnt um þáttöku. Á þriðjudaginn í þarsíðustu viku reyndi ég að halda í við ofurmaraþonhlaupara og hljóp allt of hratt. Um síðustu helgi varð ég að láta mér stuttan hlaupasprett nægja því ég hafði ekki náð að jafna mig eftir þriðjudaginn. Ég ákvað því að taka það rólega í vikunni. Aðeins of rólega. Á fimmtudaginn fór ég að finna fyrir hálsbólgu og varð hræddur um að ég væri að fá einhverja pest. Ég var því sérstaklega rólegur á föstudag og laugardag. Pestin líka.
Á sunnudagsmorgni hefur enn ekki ræst úr pestinni. Það er því ekkert að vanbúnaði að leggja fjall undir fót. Eins og lög gera ráð fyrir þá vökva ég mig ærlega fyrir hlaupið. Einum of ærlega. Ég er ekki einn um þvílík ærlegheit og það er löng biðröð á klósettið. Það fer nú ekki frekari sögum af minni klósettferð uns ég hef lokið mér af og er á leiðinni frá klósettunum. Þá vindur sér upp að mér maður og ávarpar mig á katalónsku. Ég er orðlaus. Spurði maðurinn virkilega hvort klósettin væru til alls? Þar sem ég er ekkert alltof sleipur í katalónskunni þá hvái ég. Enn á ný heyrist mér hann spyrja hið sama. Ég veit ekki alveg hverju ég eigi að svara. Sem betur fer tekur annar maður af mér orðið og segir að klósettin séu vissulega til alls þess sem af þeim megi vænta. Eða svo skilst mér.
Áður en hlaupið hefst fer kynnirinn yfir það hvernig hlaupaleiðin er merkt, óskar öllum góðs gengis og vonar að enignn villist. Hann tekur fram að hlaupaleiðin sé merkt með rauðum flöggum hægra megin við hlaupaleiðina. Ef fólk sjái rautt flagg á vinstri hönd þá skuli það snúa við. Það renna á mig tvær grímur. Ég er enginn sérlegur áttavitringur. Eins gott að reyna að halda í við hópinn svo að ég villist ekki.
Ég hleyp af stað eftir snarbröttum brekkum Barcelona í átt til fjalls. Ég hef ekki sett mér neitt sérstakt markmið um það hversu hratt ég ætli að hlaupa kílómetrana sextán. Þar sem þetta er mitt fyrsta fjallahlaup þá er ég ekki viss við hverju ég eigi að búast. Ég lýsi því yfir opinberlega að ég ætli að hlaupa þetta á innan fjórum tímum — það er að segja áður en opinberri tímamælingu lýkur. Prívat og persónulega velti ég því hins vegar fyrir mér hvort ekki væri skemmtilegt að koma í mark á innan við tveimur tímum.
Ég hef ekki hlaupið lengi uns ég er á ný staddur í biðröð. Í þetta sinn er fólk ekki að bíða eftir að geta létt af sér. Biðröðin myndast við þröngar tröppur sem virka sem flöskuháls á leiðinni. Þegar tröppurnar eru að baki breikkar leiðin á ný og hver getur hlaupið eftir sínum takti. Leiðin liggur árfam út úr borginni og inn í Collserola náttúruverndargarðinn. Um garðinn er ýmist hlaupið eftir malarvegum eða göngustígum. Á köflum eru stígarnir það mjóir að ekki er hægt að taka fram úr. Það vilja því myndast biðraðir við bröttustu brekkurnar. Mér líkar það bara vel. Það gefur mér tækifæiri til þess að ná andanum eftir að hafa stritað við að hlaupa upp brattann.
Brekkurnar reynast mér erfiðari en ég hafði gert mér í hugarlund. Bæði upp í móti og niður í móti. Brekkurnar upp í móti taka vel í og ég er alltaf heldur smeikur við að láta mig gossa niður brattar brekkur. Sér í lagi á hlykkjóttum malarstígum. Ég ákveð því að skokka þetta bara í rólegheitum og vera ekki að spá í reyna að klára þetta á innan við tveimur tímum. Ég einset mér að njóta útsýnisins þegar það á við og njóta þess að vara úti í náttúrunni. Þegar á líður læt ég eftir mér að labba upp bröttustu brekkurnar. Undir blálokin læt ég einnig eftir mér að labba upp næst-bröttustu brekkurnar. Mér liggur ekkert á.
Eftir tæplega tveggja tíma hlaup er ég kominn inn í borgina á ný. Collserola fjallgarðurinn er að baki og ekkert annað að gera en að leyfa þyngdaraflinu að toga sig niður brekkurnar í átt að settu marki. Ég hleyp yfir marklínuna einni klukkustund og fimmtíuogníu mínútum eftir að ég lagði af stað — afar sáttur við afrek dagsins.