Það sem hér fer
Það sem hér fer á eftir er tilraun til stjórnmálaskýringar. Ég verð að viðurkenna að ég fylgist ekki alveg nægilega vel með stjórnmálum hérna til að vera hæfur til að skýra þau. Ég vona að lesendur virði viljann fyrir verkið.
Kosningar
Fyrir u.þ.b. átta mánuðum síðan voru þingkosningar hér í Hollandi. Þá kusu Hollendingar vitlaust. Allir kusu þann flokk sem enginn vildi sjá á þingi. Eða þar um bil. Lijst Pim Fortuyn (LPF) fékk 26 þingsæti og varð næst stærsti flokkurinn á þingi, næst á eftir Kristinlegum Demókrötum (CDA). LPF náði þessum árangri þrátt fyrir (eða jafnvel því að), stofnandi og aðaldrifkraftur flokksins Pim Fortuyn, hafði verið myrtur skömmu fyrir kosningarnar. Pim hafði verið aðalleikarinn í flokksímyndinni og hinir listamennirnir voru allir litlir aukaleikarar. Það var því komin upp sú staða að 26 hirðislausir sauðir voru komnir á þing og enginn vissi hvað ætti að gera við þá. Eftir langar og strangar stjórnarmyndunarviðræður var þeim þó boðið að mynda stjórn með CDA og frjálslyndum hægrimönnum (VVD).
Stjórnin fellur
Fljótlega kom upp ósætti innan stjórnarinnar. Mest bar á innbyrðis erjum á milli listamanna Pims. Það var því ljóst að slíta þyrfti samstarfinu. Það þótti einnig sýnt að ekki væri hægt að mynda nýja starfhæfa stjórn miðað hvernig sætaskipan á þinginu var háttað. Það var því boðað til nýrra kosninga í þeirri von um að Hollendingar myndu kjósa ekki kjósa vitlaust í annað sinn. Hollendingar gengu að kjörborðinu í dag. Þegar þetta er skrifað liggja úrslit ekki fyrir.
Borgarstjóri verður forsætisráðherraefni
Sá flokkur sem bætir við sig flestum sætum að þessu sinni verður væntanlega Verkamannaflokkurinn (PvdA). Flokkurinn sá virðist vera dæmigerður "nútímalegur", "lýðræðissinnaður" jafnaðarmannaflokkur sem sækir flest stefnumál sín í orðabók. PvdA beið með það fram til síðasta sunnudags að tilkynna hver væri forsætisráðherraefni þeirra. Eins og nútímalegum jafnaðarmönnum sæmir var það borgarstjóri höfuðborgarinnar sem hlaut heiðurinn. Það á hins vegar eftir að koma í ljós hvort þeir ná að bæta nógu við sig til að krækja í forsætisráðherrastólinn.