Innlimun Hollands
Þegar ég skráði lögheimilið mitt um daginn hér í Amsterdam var ég svo bjartsýnn að halda að það yrði sjálfkrafa afskráð á Íslandi. Það ýtti undir brjartsýni mína að það er eyðublað á Hagstofuvefnum sem heitir "Flutningstilkynning innanlands" en ekki neitt eyðublað sem heitir "Flutningstilkynning utanlands". En nú leið og beið og ekki breyttist skráningin. Ég sendi því Hagstofunni tölvupóst og spurðist fyrir um málið. Svarið kom um hæl. Ég átti að fylla inn eyðublaðið "Flutningstilkynning innanlands" og skrifa Holland sem stað sem flutt er til. Ég hef lengi verið í þeirra manna hópi sem vill stofna íslenskan her og innlima Jan Mayen í íslenska forsetadæmið. Svo virðist hins vegar að Hagstofan hafi heldur metnaðarfyllri plön.