Gamall kunningi
Í dag kveikti ég á fartölvunni minni í fyrsta sinn frá því fyrir jól. Það var kominn tími til enda hefur hún ekki staðið ónotuð í svo langan tíma áður. Ástæðan fyrir því að ég hef ekki notað tölvuna upp á síðkastið er að ég er kominn með fína tölvu í vinnunni. Ég nota hana í allt sem ég þarf að gera, og meira til. Ég vorkenni samt fartölvunni minni svolítið af því að vera lítið notuð. Hún er örugglega gífurlega afbrigðissöm út í nýju tölvuna. Ekki bætti það úr skák að eina ástæðan fyrir því að ég kveikti á fartölvunni í dag var til að flytja gögn af henni yfir á nýju vélina.
Gögnin sem ég flutti tengjast öll meistararitgerðinni minni. Ég þarf á þeim að halda því að ég mun halda fyrirlestur á föstudaginn. Fyrirlesturinn mun fjalla um meistararitgerðina mína. Það ætti ekki að vera mikið mál að undirbúa fyrirlesturinn enda hef ég þrisvar sinnum áður flutt fyrirlestur um sama efni.
Greinaskrif
Ég er því ekki ennþá laus við meistaraverkefnið mitt. Auk fyrirlestrarins á föstudaginn þá vill umsjónarkennarinn minn að ég reyni að fá birta grein um verkefnið í eitthverju fagtímariti. Ég er hins vegar ekkert allt of æstur yfir því og læt það verk sitja á hakanum. Ég hef nefnilega nóg að gera í tengslum við doktorsverkefnið mitt. Ég er með í smíðum eina grein og eitt veggspjald sem tengjast XML upplýsingaleit.