Pakki á tröppunum ?>

Pakki á tröppunum

 

Fyrir framan útidyrahurðina heima hjá mér er dálítið innskot til þess að verja fólk fyrir regninu meðan það er að leita að lyklunum. Þetta sama innskot myndi einnig henta þeim sem vilja skilja munaðarlaus börn í körfu fyrir framan dyrnar, eins og gert er í bíómyndunum. Það var þó ekki sofandi barn í körfu sem beið mín þegar ég yfirgaf húsið í morgun. Á tröppunum svaf hins vegar fullvaxin vera undir tepppi. Ég kunni ekki við að vekja manneskjuna svo að ég klofaði bara yfir hana og hélt áfram för minni niður í skóla.

Heppnaður fyrirlestur

Ég byrjaði vinnudaginn á því að halda fyrirlestur um meistaraverkefnið mitt fyrir nemendur námskeiðsins Automated Reasoning. Fyrirlesturinn gekk bara vel enda er þetta ekki í fyrsta sinn sem ég held þennan sama fyrirlestur. Ég var þó aðeins farinn að ryðga í efninu enda hef ég ekki litið á það síðan í október í fyrra.

Misheppnaður dæmatími

Námskeiðið Automated Reasoning spannar all nokkur svið. Þar sem að umsjónarmaður námskeiðsins er ekki sérfræðingur á öllum sviðum þess þá fær hann aðra til þess að sjá um einstaka þætti þess. Til dæmis var gestafyrirlesari sem flutti fyrirlestra um Model Checking (ég ætla ekki að gera tilraun til að skýra þetta á íslensku). Ég átti síðan að sjá um dæmatíma um sama efni. Ég eyddi talsverðum tíma í gær í að búa til sýnikennslu í því hvernig nota eigi Model Checker. Þegar ég í morgun sýndi umsjónarmanni námskeiðsins hvað ég ætlaði að gera í dæmatímanum kom babb í bátinn. Verkefnið sem ég hugðist leysa var nákvæmlega hið sama og gestafyrirlesarinn hafði sett sem heimadæmi fyrir nemendur. Dæmatíminn var því blásinn af.

Skildu eftir svar