Hjólatúr norður af Amsterdam
Í dag var hæð yfir Hollandi. Veðrið var því afar gott. Sjö stiga hiti og sólin skein glatt. Ég notaði góða veðrið til að fá mér hjólatúr. Ferðinni var heitið til Marken. Marken var einu sinni raunveruleg eyja en var tengd við land með vegi árið 1957. Marken liggur í IJsselmeer. IJsselmer var einu sinni flói inn af Norðursjó en var lokaður af með vegi árið 1932.
Fyrst lá leiðin yfir Het IJ, skipaskurð sem sker Amsterdam (og Noord Holland) í tvennt og tengir IJsselmeer við Norðursjó. Ég hjólaði svo norður með austurströnd Waterland áleiðis til Marken. Á leiðinni hjólaði ég í gegnum tvö smáþorp, Durgerdam og Uitdam. Í Uitdam ætlaði ég að kaupa mér eitthvað að drekka því að ég hafði gleymt að taka með mér vatn. Kóksjálfsali bæjarins var hins vegar lokaður, sem og kaupfélagið og kráin. Útdammarar taka sér greinilega frí um helgar.
Þegar ég kom út í Marken var ég svo heppinn að koma auga á íssala sem gat selt mér flösku af vatni. Eftir að hafa svalað þorstanum hjólaði ég áfram að vita sem er úti á tanga nyrst á eyjunni. Meðfram tanganum var vatnið ísilagt og krakkar léku sér á ísnum. Ég ákvað að fá mér smá göngu á ísnum. Þó að ísinn væri krakkaheldur þá var hann ekki mannheldur. Ég steig niður í gegnum ísinn og fótblotnaði. Ég dreif mig því í land til þess að láta fótinn þorna. Þar vatt sér upp að mér heimamaður og tjáði mér að ég væri ekki sá fyrsti sem færi í gegnum ísinn. Sjálfur sagðist hann vera blautur í báða fætur. Við röbbuðum saman í dágóða stund og hann sagði mér m.a. að á þeim 40 árum sem hann hafði búið hér á eyjunni hefði hann aldrei séð vatnið frjósa eins undarlega og í ár. Þrátt fyrir dágott frost þá væri ísinn þunnur og holóttur.
Eftir skemmtilegar samræður kvaddi ég heimamanninn og hélt til baka. Á leiðinni fékk ég mér smá hjólatúr í gegnum þorpið á Marken. Þegar ég kom yfir á meginlandið ákvað ég að hjóla ekki til baka sömu leið og ég kom. Ég hjólaði því vestur vestur á bóginn til Monnickendam. Þaðan hélt ég suður til Amsterdam. Á leiðinni hjólaði ég í gegnum bæina Broek in Waterland og Zuderdorp.
Þegar ég var kominn að tröppunum heima var ég aðfram kominn af þreytu. Mér þykir það sanngjarnt ástand eftir að hafa hjólað rúmlega 50 kílómetra leið á dæmigerðum Amsterdömskum hjólgarmi. Það er ljóst að ég mun setja betra hjól á innkaupalistann fyrir sumarið. Þá get ég farið að fara í alvöru hjólatúra.