Nu moet ik Nederlands leren
Nú er kominn tími á að læra smá hollensku. Ég fór í dag í próf til að ákvarða hversu mikið ég kynni í málinu. Prófið skiptist í fjóra þætti. Fyrsti hlutinn fólst í að fylla í eyður. Þrír valmöguleikar voru gefnir fyrir hverja eyðu. Mér fór þetta verk vel úr hendi. Ég gerði þó eina klaufavillu. Næsti hluti fólst einnig í að fylla í eyður. Nú voru hins vegar engir valmöguleikar gefnir. Ég stóð mig ekki eins vel í þessum hluta. Ég fyllti ekki nema helming eyðanna rétt út. Í þriðja hluta var sest við skriftir. Ég ákvað að skrifa nokkrar línur um rannsóknir mínar. Fjórði hluti prófsins var samtal við kennara. Ég hef hingað til verið afar feiminn við að tala hollensku þar sem ég hef ekki talið mig kunna sérlega mikið. Kennarinn sem prófaði mig var hins vegar nokkuð slunginn við að draga upp úr mér hollensk orð. Það kom mér dálítið á óvart hversu ræðinn ég var. Niðurstaða prófsis var að ég þarf hvorki að taka námskeið fyrir algera byrjendur né námskeið fyrir byrjendur. Ég mun vera hæfur til að taka námskeið fyrir lengra komna. Það þýðir að ég hef ekki lengur afsökun fyrir að tala ekki hollensku.