Bókfærslumisferli ?>

Bókfærslumisferli

Í gurnnskóla fékk ég 10 í bókfærslu. Nú er öldin önnur. Ég man minn bókfærslufífil fegri. Ég hef umturnast í hálfgert bókfærslufífl. Að minnsta kosti stend ég mig ekki í stykkinu við að færa daga mína í bók. Nú ætla ég að reyna að gera yfirbót.

Undanfarið hafa átt sér breytingar á mínum högum. Þó sérstaklega mínum heimahögum. Ég flutti úr mínu átta fermetra herbergi í yfir þrjátíu fermetra íbúð. Í fyrsta sinn á þeim tæpu þremur árum sem ég hef búið í Amsterdam þá hef ég til umráða mitt eigið eldhús, mitt eigið bað og mína eigin stofu. Það er enginn smá munur að geta núna með góðri samvisku skilið eftir óhreint leirtau í vaskinum, sullað tannkremi á baðherbergisspegilinn og sett fæturna upp á stofuborð. Ef ég ætti nú bara stofuborð. Það kemur að því síðar.

Annars er nú barasta allt við það sama. Nóg að gera í vinnunni. Ég er með þrjár greinar í smíðum. Þar að auki þarf ég að dæma eina fyrirspurn fyrir upplýsingaleitarkeppnina sem ég tók þátt í. Það verk snýst um að kíkja á um það bil fimmhundruð tölvunarfræðigreinar og segja til um það hvaða hlutar þeirra svara fyrirspurninni. Sem betur fer finnst mér fyrirspurnin áhugaverð. Það þarf ekki að koma á óvart því að ég samdi fyrirspurnina sjálfur. Ég mun því á næstunni fræðast mikið um það hvernig formlegum aðferðum er beitt til að sanna rétta virkni flugkerfa.

Skildu eftir svar