Auglýsingavandræði ?>

Auglýsingavandræði

Skortur á auglýsendum getur sett strik í reikninginn fyrir rekstur sjónvarpsstöðva. Hér í Hollandi hafa sex sjónvarpstöðvar nýverið orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna fjölda auglýsenda. Auglýsendurnir voru að vísu ekki of fáir. Þeir voru of margir. Þessar stöðvar voru sektaðar fyrir að senda úr of mikið að auglýsingum. Í Hollandi er bannað að senda úr meira en tólf mínútur af auglýsingum á hverjum klukkutíma.

Mér finnst þessi löggjöf út í hött. Ég skil vel að sjónvarpsstöðvar vilji maka krókinn á vinsælum útsendingum. Mér finnst að áhorfandinn sjálfur eigi að hafa síðasta orðið í umræðunni um hvort of mikið sé auglýst. Ef áhorfandanum finnst of mikið auglýst þá skiptir hann yfir á aðra stöð eða slekkur bara á sjónvarpinu og fer út að skokka.

Eins og áður sagði þá skil ég vel að sjónvarpsstöðvar freistist til að brjóta auglýsingalögin þegar þær senda út vinsælt sjónvarpsefni. Það sem ég skil hins vegar ekki er að alvarlegasta brotið skuli hafa verið framið við útsendingu á keppni í pílukasti. Sjónvarpstöð sendi úr sautján mínútur og þrjátíuogtvær sekúndur af auglýsingum á einum klukkutíma milli þess sem að stöðin sýndi keppni í pílukasti. Ég held að ætti að verðlauna stöðina frekar en að refsa henni. Ég get ekki ímyndað mér að það sé hollt að horfa á meira en fjörutíuogátta mínútur af pílukasti á einum og sama klukkutímanum.

Það kom mér hins vegar á óvart að hollenska sjónvarpsstöðin, sem sendir út Formúluna, skuli ekki hafa verið sektuð. Formúlan er nefnilega geysi vinsæl, líkt og pílukastið. Formúlan laðar því að sér marga áhorfendur og þar með einnig marga auglýsendur. Milli þess sem að sjónvarpstöðin sendir út myndir af Jos Verstappen aka í hringi þá sendir hún út meira en tólf mínútur af auglýsingum á hverjum klukkutíma. Það sem bjargar þessari stöð frá refsivendi hollenskra yfirvalda er að hollenska stöðin er ekki hollensk. Hún er lúxembúrgsk.

Skildu eftir svar