Stórverslunarleiðangur
Ég var orðinn leiður á að geta ekki sett fæturna upp á stofuborð. Ég skrapp því í IKEA til þess að kaupa stofuborð. Fyrst ég var í húsgagnaverslun á annað borð þá ákvað ég að kippa með einu stykki svefnsófa, einu sjónvarpsborði og skrifborðsstól.
Í verslunarleiðangri mínum komst ég að því að ég er algerlega vonlaus lagermaður. Eftir að hafa sagt starfsmanni IKEA hvað ég vildi kaupa, fékk ég í hendurnar tiltektarseðil sem tilgreindi nákvæmlega hvar á lagernum einstaka hluti var að finna. Það tók mig ótrúlega langan tíma að átta mig á því hvernig lagerinn var skipulagður. Ekki bætti úr skák að það var villa á tiltektarseðlinum. Ég fann skrifborðsstólinn á allt öðrum stað en tilgreint var. Mér tókst þó á endanum að finna alla átta pakkana sem voru á listanum (stóllinn og sófinn voru hvor um sig í þremur hlutum). Áður en ég fór að kassanum ákvað ég svona að gamni mínu að athuga hvort ég hafði ekki tekið til rétta pakka. Þá kom í ljós að ég hafði tekið rangt stofuborð. Ég þurfti því að fara til baka og finna rétt borð.
Þegar allir pakkarnir voru komnir í hús hófst ég handa við að skrúfa. Ég byrjaði á svefnsófanum. Þegar ég ætlaði að fara að skrúfa botninn á grindina komst ég að því að botninn var kengboginn. Ég hringdi í IKEA og fékk að vita að ég fengi nýjan botn á mánudaginn. Ég snéri mér því næst að borðunum. Þau voru gallalaus og mér tókst áfallalaust að skrúfa þau saman. Að lokum snéri ég mér að stólnum. Þegar ég opnaði kassann komst ég að því að stóllinn var rauður. Ég hafði hins vegar hugsað mér að fá mér bláan stól. Það var þá kannski ekki villa á tiltektarseðlinum eftir allt saman.