Hvað borða fiskar? ?>

Hvað borða fiskar?

Hvað borða fiskar? Ég snéri mér við í sætinu og leit á vinnufélaga minn sem stóð í dyragættinni. Hvað átti maðurinn við? Þessi spurning kom svo flatt upp á mig að ég kom ekki upp nokkru orði. Vinnufélaginn taldi því réttast að skýra mál sitt betur. Meðleigjandi hans hafði farið í vikufrí og skilið eftir miða þar sem hún bað hann að gefa fisknum sínum að borða. Vinnufélaginn reyndist hafa litla reynslu af fiskeldi. Sjálfur er ég óttarlegur þorskur þegar kemur að sjávarútvegsmálum.

Við ræddum þó málið um stund og komumst að þeirri niðurstöðu að líklega borðuðu fiskar fiskafóður. Vinnufélagann hafði að vísu grunað að svo væri en hann hafði ekki fundið neitt slíkt í íbúðinni. Næsta niðurstaða rökræðunnar var ekki síður gáfuleg en sú fyrsta. Við ályktuðum að fiskafóður væri hægt að kaupa í gæludýrabúð. Hvorugur okkar mundi þó eftir að hafa séð slíka búð í Amsterdam.

Að lokum komst vinnufélaginn að þeirri niðurstöðu að réttast væri fyrir hann að borða fiskinn. Ég efast ekki um að sú niðurstaða hafi verið rökrétt. Enda er vinnufélaginn í doktorsnámi í rökfræði.

One thought on “Hvað borða fiskar?

Skildu eftir svar