Ferillinn á enda?
En karlsson komst heim með Búkollu sína, og urðu karl og kerling því ósköp fegin.
Svo hljóðar endirinn á leiklistarferli mínum hér í Hollandi. Í bili að minnsta kosti. Að baki eru þrettán sýningar af gjörningnum Babelsturninn. Gjörningurinn fór fram í flæmsku leikhúsiu hér í Amsterdam. Tilgangur gjörningsins var að vekja fólk betur til umhugsunar um það hverning mismunandi þjóðir og menningarheimar geta lifað saman í sátt og samlyndi.
Gjörningurinn hófst á að áhorfendur voru leiddir inn í sal með um það bil tuttugu rúmum á stangli. Þeir voru háttaðir ofan í rúm og gefið te að drekka. Plötusnúður og myndbandssnælda sáu um að hafa ofan af fyrir fólkinu meðan það var að koma sér þægilega fyrir, hvert í sínu fleti. Eftir dágóða stund hætti tónlistin. Í sömu andrá gengu um það bil tuttugu manns inn í salinn og settust hver við sitt rúmið. Eftir að allir höfðu komið sér fyrir var dauðaþögn í nokkrar sekúndur, uns yfirsetufólkið byjaði eitt af öðru að segja sögur. Sumir lásu ástarbréf, aðrir sögðu þjóðsögur og að minnsta kosti einn lýsti draumförum sínum. Allir sögumenn voru útlendingar og töluðu sitt eigið móðurmál. Sögustundin varði í um það bil sjö mínútur. Smám saman luku sögumenn máli sínu og kliðurinn fjaraði út. Eftir það var þögn í nokkrar sekúndur uns plötusnúðurinn og myndbandssnældan hófu yðju sína á ný. Undir tónlistinni kynnti hver sögumaður sig fyrir sínum áhorfanda og rabbað var um daginn og veginn í fimm til tíu mínútur. Einn af öðrum yfirgáfu síðan sögumennirnir salinn.
Það var nokkuð mögnuð lífsreynsla að taka þátt í þessu. Það var ótúlegt að sjá hvernig fólk hlustaði af athygli á frásögn mína án þess að það skyldi eitt einasta orð. Skemmtilegast af öllu fannst mér samt samtölin eftir sögustundirnar. Ég byrjaði jafnan á að kynna mig og spyrja hvort fólkið vissi á hvaða máli sagan var. Flestir giskuðu á að ég talaði finnsku eða dönsku. Einn áhorfandanna var þó skemmtilega nærri því rétta. Hann var nokkuð viss um að ég talaði gamal-norsku. Flestir spurðu mig síðan um hvað sagan hefði verið. Eftir það þróuðust samræðurnar á ýmsa vegu. Ég fékk alls konar spurningar til að svara. Hvernig gastu yfirgefið náttúruna á Íslandi og flutt í ónáttúruna í Hollandi? Hvert er sambandið milli Íslands og Noregs? Hvernig stendur á því að Íslendingar eru afar stoltir af tungumáli sínu en eru jafnframt afar þögulir? Hvað varð til að Java forritari skipti yfir í að forrita í Perl? How do you like Holland? Sumum spurningum var auðveldara að svara en öðrum. Einni spurningu gat ég þó ómögulega svarað. Er sagan um Búkollu meiri strákasaga en stelpusaga?